Stólarnir sitja sem fastast í þeirri fjórðu

Andri Jónasson í liði KFK fagnar öðru marki sínu í leiknum sem hann gerði af 50 metra færi. Glæsimark ú miðjuhringnum. MYND: ÓAB
Andri Jónasson í liði KFK fagnar öðru marki sínu í leiknum sem hann gerði af 50 metra færi. Glæsimark ú miðjuhringnum. MYND: ÓAB

Nú þegar ein umferð er eftir af keppni í 4. deildinni í knattspyrnu er ljóst að fjórða sætið verður hlutskipti Tindastóls en draumurinn um sæti í 3. deild fékk frekar nöturlegan endi þegar Kópavogspiltar í KFK gerðu sex mörk á Króknum í dag. Leikurinn var reyndar ansi fjörugur í sunnanrokinu en heimamenn voru helst til of gjafmildir í varnarleiknum og lokatölur 3-6.

Bókstaflega allt þurfti að falla með Stólunum í síðustu tveimur umferðunum til að þeirr ættu möguleika á sæti í 3. deild en þeir hófu leik á því að skjóta sig í fótinn. Hólmar Daði fékk að líta rauða spjaldið strax eftir níu mínútur. Engu að síður komust heimamenn yfir með marki frá David Jimenez eftir átján mínútna leik. Andri Jónasson jafnaði fyrir KFK þremur mínútum síðar og þremur mínútum eftir það gerði Anton Örth sjálfsmark. Alvaro Ronda gerði þriðja mark gestanna á 36. mínútu og staðan í hálfleik 1-3.

Hagur heimamanna vænkaðist í síðari hálfleik þegar Hlynur Bjarnason fékk að líta rauða spjaldið fyrir háskalega tæklingu en fimm mínútum síðar hafði Andri bætt við marki fyrir KFK með skoti úr miðjuhringnum, yfir Alejandro í marki Tindastóls sem gerði hvað hann gat til að bjarga málum en skotið sleikti þverslána á leiðinni inn. Á 65. mínútu komst Addi Ólafs inn fyrir vörn KFK og afgreiddi boltann snyrtilega í markið en Stefán Magnús jók muninn að nýju í þrjú mörk, 2-5, á 82. mínútu eftir slappan varnarleik Stólanna. Markamaskínan Jóhann Daði lagaði stöðun tveimur mínútum síðar en Anton Sigurðarson átti lokahöggið fyrir gestana með marki á 95. mínútu.

Svekkelsi fyrir Stólana en leikmenn KFK voru alsælir, enda náðu þeir á ný að príla upp í annað sæti deildarinnar og vinna leik sem þeir hafa eflaust haft áhyggjur af fyrirfram. Þeir mæta liði Uppsveita í lokaumferðinni en uppsveitamenn verma botnsætið og sæti í 3. deild því nokkuð öruggt hjá KFK. Þeir fylgja því væntanlega liði Vængja Júpíters úr Grafarvogi upp um deild.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir