Stólastúlkur dottnar út eftir hörkuleik gegn sameinuðum Akureyringum

Tindastóll og Þór/KA mættust á Dalvíkurvelli í hádeginu í dag í fyrsta leiknum í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna. Nokkur vindur var og einstaka slyddubakki gekk yfir Eyjafjörðinn meðan á leik stóð og lék vindurinn nokkuð hlutverk í því hvernig leikurinn þróaðist. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik og leiddu gestirnir í Þór/KA 1-2 í hálfleik en ekki tókst liðunum að skora í þeim síðari þrátt fyrir sénsa á báða bóga.

Akureyringar sóttu stíft undan vindi í fyrri hálfleik em Monica varði það sem á markið kom. Það má þó segja að Jordyn hafi fengið besta færið þegar hún slapp ein í gegn upp við miðju eftir mistök gestanna. Hún þrengdi nokkuð færið áður en hún skaut og setti boltann framhjá marki Þórs/KA. Á 29. mínútu bætti hún fyrir mistökin. Shelby Money í marki gestanna átti þá slæmt útspark, Hugrún vann boltann og kom honum inn á teiginn þar sem Jordyn gerði vel að búa sér til pláss og koma boltanum í marikið. Fimm mínútum síðar jafnaði Karen María leikinn eftir góðan undirbúning Söndru Jessen og Sandra gerði einnig mjög vel þegar hún lagði upp mark fyrir Huldu Ósk á 44. mínútu. Staðan 1-2 í hálfleik.

Undan vindi í síðari hálfleik þá héldu Stólastúlkur gestunum í skrúfstykki upp við mark sitt fyrsta stundarfjórðunginn og voru óheppnar að jafna ekki leikinn. Leikurinn jafnaðist síðan og bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum en inn vildi boltinn ekki. Næst komust Stólastúlkur því að jafna þegar bjargað var á línu.

Liðin sýndu á köflum ágæta takta og mörkin hefðu hæglega geta orðið fleiri. Úrslitiin þýða að sjálfsögðu að lið Tindastóls er úr leik í Mjólkurbikarnum og í raun lítið gengið í keppninni síðustu sumar – enda liðið alltaf dregist gegn sterkum andstæðingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir