Stólastúlkur hefja leik í 1. deildinni í körfu um helgina
Á morgun, laugardaginn 26. september, spilar kvennalið Tindastóls fyrsta leik sinn í 1. deild kvenna þetta tímabilið. Andstæðingurinn er lið Vestra frá Ísafirði og hefst leikurinn kl. 16:00 í Síkinu. „Það eru allar klárar í slaginn um helgina, smá eymsli en ekkert sem hefur áhrif,“ segir Árni Eggert Harðarson þjálfari Tindastóls.
Um svokallaðan tvíhöfða er að ræða þar sem liðin mætast aftur daginn eftir á sama stað en á öðrum tíma – nefnilega kl. 12:00 á sunnudeginum.
„Veturinn leggst mjög vel í mig,“ segir Árni Eggert í spjalli við Feyki. „Ég er spenntur að sjá stökkið hjá þeim leikmönnum sem sýndu dugnað í þessu óhemju langa leikjafríi. Það er gaman að fá ný lið inn í deildina, auka breiddina og fá að keppa á móti nýjum andlitum.“
Þrjár umferðir eru spilaðar í 1. deildinni, alls 24 umferðir, og síðan er fjögurra liða úrslitakeppni næsta vor. Níu lið eru skráð til leiks í deildinni. Fjölmennum (eins og reglur leyfa) í Síkið og hvetjum stelpurnar til dáða. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.