Stólastúlkur kræktu í sjöunda sætið

Hugrún sækir að marki Þórs/KA. Það var frítt á völlinn í dag í boði VÍS og mætingin hreint frábær. MYND: ÓAB
Hugrún sækir að marki Þórs/KA. Það var frítt á völlinn í dag í boði VÍS og mætingin hreint frábær. MYND: ÓAB

Síðasta umferðin í deildarkeppni Bestu deildar kvenna fór fram í dag og fyrir umferðina var ljóst að lið Tindastóls, Keflavíkur, ÍBV og Selfoss yrðu í botnsætunum fjórum. Til að bæta stöðu sína í úrslitakeppninni þurftu liðin að næla í stig en í dag var lið Tindastóls eina liðið sem nældi í stig – reyndar bara eitt en það var í fyrsta sinn sem Stólastúlkur ná í stig gegn Akureyringum. Liðin mættust í blíðuveðri á Króknum og úr varð æsispennandi markalaust jafntefli.

Stigið dugði til að færa lið Tindastóls upp í sjöunda sæti deildarinnar sem verður að teljast flott hjá liðinu og nú þarf að halda vel á spöðunum í úrslitakeppninni þar sem Tindastóll spilar tvo heimaleiki og einn útileik. Stigin sem nást í úrslitakeppninni bætast við stigafjöldann sem liðin hafa að lokinni deildarkeppninni.

Leikurinn í dag var fjörugur en þó var ekki mikið um dauðafæri, liðin vörðust bæði vel og markverðir beggja liða vörðu það sem á markið kom. Strax á 2. mínútu leiksins komst leikmaður Þórs/KA upp með að teika og toga í Murr á miðlínu þegar hún var að sleppa inn fyrir en einhverra hluta veifaði dómarinn ekki gulu spjaldi – hann átti eftir að veifa því síðar í leiknum fyrir mun minna tog. Lið gestanna var skeinuhættara framan af leik en um miðjan fyrri hálfleik komst betri taktur í leik heimaliðsins og á 29. mínútu fékk Aldís María dauðafæri, komst ein inn fyrir og átti bara eftir að koma boltanum framhjá Melissu í marki gestanna en hún náði að gera sig stóra og varði með tilþrifum. Sandra María skoraði síðan mark fyrir hlé sem sennilega var dæmt af vegna rangstæðu. Staðan 0-0 í hálfleik.

Það hefði mátt halda að Donni hefði gefið stelpunum sínum skúffuköku í hálfleik því þær virkuðu þungar og á eftir í flesta bolta fyrstu mínútur síðari hálfleiks. Gestirnir pressuðu stíft en vörn Tindastóls hélt og augljóst að það yrði barist með kjafti og klóm til síðustu mínútu. Síðasta stundarfjörðunginn eða svo þá opnaðist leikurinn örlítið og bæði lið hefðu getað skorað. Enn var það Aldís sem fékk besta færi Stólastúlkna en hafði ekki erindi sem erfiði.

Niðurstaðan sem fyrr segir markalaust jafntefli. Lið Þórs/KA er ansi sterkt þó það hafi aðeins endað sæti ofar en lið Tindastóls. Það hefur líka jafnan reynst erfitt viðureignar og nokkuð ljóst að Akureyringar gefa sig allar í leiki gegn liði Tindastóls – enda vilja þær halda í montréttinn í Norðurlandsslagnum.

Úrslitakeppnin hefst um næstu helgi og verða allir sex leikirnir sem liðin fjögur leika spilaðir á laugardögum (með viku millibili, tveir hvern laugardag). Fyrst fá Stólastúlkur lið Keflvíkinga í heimsókn, síðan sækja þær Selfoss heim og mæta síðan ÍBV í lokaumferðinni. Tindastóll endaði tímabilið með 19 stig, fimm stigum meira en í Pepsi Max deildinni 2021, og hefur stigsforskot á ÍBV og tveggja stiga forskot á Keflavík en slakari markatölu en þau bæði. Botnsætið vermir Selfoss sem hlaut aðeins 11 stig og þarf á meiriháttar kraftaverki að halda til að halda sér í Bestu deildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir