Svekkjandi tap á móti ÍH – úrslitakeppnin úr sögunni

Kristófer Skúli í leik á dögunum. Mynd: LAM
Kristófer Skúli í leik á dögunum. Mynd: LAM

Kormákur/Hvöt heimsótti ÍH í Hafnarfjörðinn síðastliðinn laugardag. Fyrir leikinn var Kormákur/Hvöt í þriðja sæti riðilsins með 16 stig eftir tíu leiki og enn í baráttunni um að komast í úrslitakeppni 4. deildarinnar. ÍH var í öðru sæti með 17 stig eftir tíu leiki. Allt undir og mjög mikilvægt að ná þremur stigum úr leiknum.

Kormákur/Hvöt byrjaði leikinn vel eins og oft áður og kom Kristófer Skúli Auðunsson liðinu yfir á 33. mínútu með frábæru marki sem leit út í fyrstu fyrir að vera frábær sending inn í teig en endaði í markinu. Staðan í hálfleik 0-1. ÍH menn voru með yfirhöndina frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks og fyrra mark ÍH manna kom á 76. mín. Þeir náðu svo að tryggja sér stiginn þrjú með seinna markinu á 90. mínútu. Staðan í leikslok 2-1. Eins og svo oft áður nýtti Kormákur/Hvöt færin sín ekki nógu vel og grátlegt tap Kormáks/Hvatar staðreynd og möguleikar á að komst í úrslitakeppnina úr sögunni. Það eru því Kórdrengir og ÍH sem komast í úrslitakeppnina úr D-riðli.

Síðasti leikur sumarsins hjá  Kormáki/Hvöt fer fram á Blönduósvelli á laugardaginn kl. 14:00. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir