„Það bregst aldrei að þær heilla mig með baráttuanda sínum“

Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Murielle fyrir leikinn í dag. MYND: JÓHANN SIGMARSSON
Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Murielle fyrir leikinn í dag. MYND: JÓHANN SIGMARSSON

Það kom fram í umfjöllun um leik Tindastóls og ÍBV í dag að Murielle Tiernan, eða bara Murr upp á grjótharða íslensku, var heiðruð áður en leikurinn hófst en hún náði fyrir nokkru þeim áfanga að hafa spilað 100 leiki fyrir Stólastúlkur í deild og bikar. Það eru um sex ár frá því að hún gekk fyrst til liðs við Tindastól sem þá var í 2. deild en með tilkomu hennar og uppkomu metnaðarfullra og stoltra Stólastúlkna í meistaraflokk hófst ótrúlegur uppgangur kvennaboltans á Króknum. Feykir sendi nokkrar spurningar á Murr.

Ertu hissa á því að þú sért enn á Króknum og að spila með liði Tindastóls eftir sex sumur, hefðirðu trúað því að þú ættir eftir að spila yfir 100 leiki fyrir liðið og skora í þeim tæplega 100 mörk þegar þú komst hingað fyrst? „Ef þú hefðir sagt mér þetta þegar ég kom hingað fyrst hefði ég haldið að þú værir brjálaður. Á hverju ári sé ég mig koma aftur en er aldrei alveg viss. Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi spila 100 leiki fyrir félagið en það er satt að segja eitt af afrekunum sem ég er stoltust af. Ég lít á sjálfa mig sem trygga manneskju og ég hef algjörlega elskað árin mín með þessum stelpum og í þessum bæ og það hefur verið stórkostlegt að hjálpa þessu liði að komast þangað sem við erum. Ég er svo stolt af hópnum fyrir það hvert hann hefur náð frá fyrsta leiknum mínum með þeim til 100+.“

Hvernig myndir þú lýsa tíma þínum með Tindastólsliðinu?„Æðislegur. Ég kom til að skoða Ísland og ég fann annað heimili. Fótboltinn var bara leið fyrir mig að komast hingað upphaflega en ég hef elskað að spila með þessum stelpum og fá að hjálpa þeim að vaxa í gegnum árin. Það bregst aldrei að þær heilla mig með baráttuanda sínum.“

Hvað hefur verið dýrmætast á tíma þínum hér?„Allt fólkið sem ég hef hitt. Ég get með sanni sagt að ég á nokkra ævilanga vini hér á Íslandi. Jafnvel þó ég flytji heim mun ég alltaf koma aftur hingað, þetta er sannarlega mitt annað heimili.“

Hvað finnst þér um liðið í dag og eru nýju leikmennirnir spennandi?„Ég var mjög, mjög, mjög stolt af liðinu í dag. Mér fannst nýju stelpurnar góðar og muni hjálpa okkur að halda boltanum og komast ofar á völlinn. Ég var bara stolt af hópnum í heild sinni – við spiluðum nýtt kerfi og allir lögðu hart að sér til að ná árangri. Við höfum aldrei skorað svona mörg mörk í einum leik í efstu deildinni þannig að í dag var spennandi byrjun á seinni parti tímabilsins þar sem við reynum að halda sæti okkar í deildinni!“ segir Murr.

Blaðamaður spurði Bryndísi Rut fyrirliða hvað henni finndist um Murr sem leikmann og persónu. „Hún er alveg ótrúleg. Hún er ein af mínum eldri vinum í liðinu þar sem hún hefur verið hér í nánast 6 ár. Hún er virkilega góður framherji, á næstum sama fjölda af leikjum og mörkum sem er alveg magnað! Í dag skoraði hún að vísu ekki en hún lagði upp öll mörkin svo hún er alltaf stór þáttur af sóknarleiknum, Hún er góður liðsfélagi og erum við heppnar að hafa kynnst henni og haft hana í liðinu í öll þessi ár! Liðið á góð tengsl við hana og fjölskyldu hennar líka sem er alveg yndisleg og ég persónulega er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst Murielle Tiernan og mun alltaf varðveita okkar vináttu í framtíðinni.“

Feykir óskar Murr til hamingju með áfangann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir