Þórarinn þjálfar á heimsmeistaramóti: „Úrslitin ráðast mikið utan vallar"

Þórarinn Eymundsson á Heimsmeistaramótinu í hestaíþróttum í Oirschot í Hollandi. Mynd: Aðsend
Þórarinn Eymundsson á Heimsmeistaramótinu í hestaíþróttum í Oirschot í Hollandi. Mynd: Aðsend

Þessa dagana stendur yfir Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi. Þórarinn Eymundsson, tamningamaður, reiðkennari, hrossaræktandi og lektor við hestafræðideild Háskólans á Hólum tekur þar þátt sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum.

Þórarinn er þaulvanur heimsmeistaramótum en hann varð tvöfaldur Heimsmeistari árið 2007 í Hollandi á hestinum Kraft frá Bringu svo eftirminnilega í fimmgang og samanlögðum fimmgangsgreinum. Einnig hefur hann hlotið fjögur silfurverðlaun á heimsmeistaramóti. 

Feykir hafði samband við Þórarinn og heyrði í honum hljóðið. Hlutverk hans sem þjálfari í liðinu er að hjálpa knöpunum að undirbúa sýningarnar og þjálfa og fylgja þeim á keppnisdegi. 

"Þetta snýst mikið um að passa að knöpunum líði vel og þeir geri það sem þeir eru vanir. Ef það er hins vegar ekki að virka þá að hjálpa þeim með að prófa eitthvað annað. Þá kafar maður í reynslubankann og þá þekkingu sem maður hefur viðað að sér í gegnum árin. En þetta snýst oftast mikið um að peppa upp sjálfstraust og að stilla spennustigið rétt. Úrslitin ráðast mikið utan vallar," segir Þórarinn

Hvernig hefur gengið hingað til? 
Það gengur mjög vel. Þegar kominn tvö gull í gæðingaskeiðinu og allir knapar hafa skilað sér inn í úrslit í hringvallargreinum hingað til. Íslandsfæddu kynbótahrossin standa öll efst í sýnum flokkum en 7 vetra flokkurinn er eftir.

Hvernig eru aðstæður í Hollandi?
Aðstæður hér eru góðar. Hesthúsin og svæðið þar í kring gott og knaparnir hafa aðgang að góðu tjaldi þar sem hægt er að setjast niður og fá sér vel að borða. Landsliðið kemur með mikið af íslenskum mat með sér. Harðfisk, smjör, flatbrauð og hangikjöt, og nóg af íslensku vatni. Hér hefur rignt mikið undanfarna daga og það hefur gert velli og upphitunarsvæðið mjög blaut á köflum en knaparnir hafa tæklað það mjög vel.

Nú hefur þú keppt á nokkrum heimsmeistaramótum, telur þú reynsluna þína frá þeim mótum nýtast þér í að leiðbeina keppendum íslands á þessu móti?
Auðvitað skiptir reynslan af HM og öðrum stórmótum máli þegar kemur að því að stilla knapa og hest rétt af. Þegar komið er á HM þá má líkja þessu við að hafa bara eitt skot í byssunni og þú verður að hitta í markið því þetta er síðasta mótið hjá íslensku knöpunum með sína hesta á meðan knapar frá öðrum þjóðum geta bara mætt aftur á næsta mót.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir