Tindastóll með lið í 2. deild kvenna

Í kvöld verður haldinn stofnfundur nýs liðs hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls þar sem ætlunin er að leika í 2. deild kvenna. Fundurinn verður haldinn á Grand-Inn bar kl. 21.00. Að sögn Sigríðar Garðarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa liðsins, varð kveikjan að stofnun liðsins til á Körfuboltanámskeiði sem Brynjar Þór Björnsson, fyrrum leikmaður Tindastóls, hélt á Sauðárkróki í sumar. Þar gafst öllum þeim sem höfðu gaman af því að spila körfubolta tækifæri til þjálfa undir hans leiðsögn.

„Á þessi námskeið  mættu nokkrar kempur og áhuginn varð svo mikill að þær vildu ólmar koma saman einu sinni í viku til að spila körfu. Þetta vatt svo upp á sig á þann hátt að nú ætlum við okkur að spila í 2. deildinni í vetur fyrir hönd Tindastóls. Tilgangurinn er samt sem áður að hafa gaman saman og njóta þessa að hreyfa sig í skemmtilegri íþrótt sem karfan er,“ segir Sigríður.

Eins og staðan er núna er enginn þjálfari en það gæti alveg breyst, segir Sigríður, þegar búið verður að láta á þetta reyna. Hún segir það nánast alveg galopið hverjir mega vera með.

„Einu skilyrðin eru að vera kvenmaður. Þú þarft ekki að vera góð, aðalmálið er að hafa gaman af því að spila körfubolta.“

Keppnisfyrirkomulagið í 2. deildinni er þannig að keppt er á örmótum þrisvar sinnum yfir veturinn. Þá keppa öll þau lið sem skráð eru til leiks í 2. deildinni á einum degi. „Í fyrra voru fjögur lið skráð til leiks og ef þau halda öll áfram og við komum inn þá erum við að tala um fimm lið, þetta verður alveg frábært,“ segir Sigríður.

„Við vonumst bara til að sjá sem flestar á stofnfundi í kvöld og ef einhver þarna úti hefur áhuga á að bætast í hópinn þá er um að gera að hafa samband við okkur í gegnum Facebook síðuna 2.deild kvenna Tindastóll því þar verðum við mjög virkar í að svara öllum fyrirspurnum. Annars bara Áfram Tindastóll.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir