Tindastólshóparnir styrktir fyrir sumarið

Kvennalið Tindastóls sumarið 2018. Jón Stefán, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Tindastóls og annar þjálfari kvennaliðsins, er lengst til vinstri í miðröð. MYND: PF
Kvennalið Tindastóls sumarið 2018. Jón Stefán, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Tindastóls og annar þjálfari kvennaliðsins, er lengst til vinstri í miðröð. MYND: PF

Feykir hafði samband við Jón Stefán Jónsson, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Tindastóls og annan þjálfara kvennaliðs Stólanna, og spurði út í leikmannamál Tindastólsliðanna. Strákarnir spila í sumar í 2. deildinni líkt og undanfarin ár en stelpurnar taka þátt í Inkasso-deildinni eða 1. deild kvenna.

Jón Stefán tjáði Feyki að nú í vikunni kæmi til landsins strákur frá Spáni sem heitir Alvaro Igualada og er framherji. „Hann hefur spilað í 3.deild á Spáni og bindum við miklar vonir við hann. Í lok mánaðar kemur svo strákur sem er Stólunum kunnugur, Tanner Sica, fjölhæfur leikmaður með góðan vinstri fót. Hann hafði samband og bað um að koma og að sjálfsögðu þyggjum við allan liðsstyrk. Undanfarið hafa svo spilað með okkur þrír strákar frá Akureyri, þeir Hafsteinn Magnússon, Bjarki Baldursson og Jón Óskar Sigurðsson. Þeir eru allir fæddir 99' og þeir tveir síðarnefndu er að láni frá Þór,“ segir Jón Stefán. Þá er Ástralinn Jon Faerber, sem varið hefur mark Stólanna í vor, á samningi og er byrjaður og vinna og fluttur á Krókinn.

Um leikmannamál kvennaliðs Tindastóls segir Jón Stefán að Jackie Altschuld [sem sagt var frá fyrr í vetur að hefði samið við lið Tindastóls] sé væntanleg í byrjun maí að því gefnu að það náist að græja sakarvottorð frá Noregi. „Það gengur hægt og illa að eiga við kerfið þar en hún kemur að lokum,“ segir hann. Auk hennar er Murielle Tiernan, sem spilað frábærlega með liði Tindastóls í fyrra, þegar kominn á Krókinn og byrjuð að skora.

Tvær ungar og efnilegar heimastelpur hafa staðið í marki Stólanna í vetur og vor en ákveðið var að styrkja hópinn með því að fá reyndan markmann til liðsins. „Við eigum von á markmanni,“ segir Jón Stefán. „Sú er bresk þar sem að þeir íslensku markmenn sem við höfðum samband við ýmist gátu ekki komið eða þá að félög þeirra vildu ekki sleppa þeim þegar á hólminn var komið. Hún heitir Lauren Amie-Allen og er fædd árið 1996. Hefur verið markmaður hjá Crystal Palace undanfarin ár en er uppalin hjá Chelsea.“

Jón Stefán segir það vera stefnu knattspyrnudeildarinnar að greiða ekki leikmönnum beinlínis fyrir að spila. „Allir þessir leikmenn eru í fullri vinnu eða hálfri vinnu og fá laun í takt við það frá sínum vinnuveitanda. Við viljum reka deildina af ábyrgð og gefa okkar iðkendum tækifæri til að spila. Þessi liðsstyrkur sem um ræðir er eitthvað sem við teljum nauðsynlegan ef það markmið á að nást að halda stelpunum í Inkasso-deildinni og strákunum í 2.deildinni. Í kvennaliðinu okkar byrja átta heimastelpur alla leiki, sem er eitthvað sem við erum afar stolt af og í raun magnað afrek í næst efstu deild.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir