Toppliðið hafði betur gegn vængbrotnum Tindastólsmönnum
Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli hélt til Njarðvíkur í gær þar sem spilað var gegn toppliði 2. deildar. Mikið hefur gengið á hjá Stólunum undanfarna daga, skipt um þjálfara og félagið misst þrjá af sínum bestu leikmönnum. Það var því ljóst að ramman reip yrði að draga gegn sterkum Njarðvíkingum og það kom á daginn. Lokatölur 2-0 fyrir Njarðvík.
Heimamenn voru klárlega sterkari aðilinn í leiknum en Stólarnir vörðust vel. Frá því í síðasta leik voru Stephen Warmsley, Kenny Hogg og Neil Slooves farnir frá félaginu og síðan var Konni Sigga Donna í banni og Hólmar Skúla meiddur. Tveir leikmenn höfðu bæst í hópinn; þeir Arnór Daði Gunnarsson (tímabundið úr HK) og Aron Örn Sigurðsson (úr Hamri) sem báðir léku með liðinu síðasta sumar, og náðu Stólarnir því að vera með 14 leikmenn á skýrslu.
Fyrsta mark leiksins gerði Atli Freyr Ottesen Pálsson á 30. mínútu og Andri Fannar Freysson bætti síðan við marki úr víti á 59. mínútu og þar við sat.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima á miðvikudag en þá kemur lið Aftureldingar í heimsókn. Fyrir þann leik má vænta þess að Stólarnir hafi náð að styrkja lið sitt enn frekar þó svo að liðið eigi pottþétt eftir að þurfa tíma til að slípast saman.