Tveir sigrar gegn Hamri

Tess Williams fór mikinn í leikjunum gegn Hamri. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA
Tess Williams fór mikinn í leikjunum gegn Hamri. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA

Kvennalið Tindastóls gerði góða ferð í Hveragerði um helgina en stelpurnar léku tvo leiki við heimastúlkur í Hamri og gerðu sér lítið fyrir og sigraði þá báða. Að loknum sjö umferðum er lið Tindastóls í fimmta sæti 1. deildar með sex stig, jafn mörg og lið Þórs frá Akureyri sem hefur leikið fimm leikið fjóra leiki.

Lið Hamars og Tindastóls mættust fyrst í gær og var um hörkuleik að ræða. Heimastúlkur byrjuðu betur og komust í 16-6 en lið Tindastóls, með Tess Williams í fararbroddi, náðu að minnka muninn í fjögur stig, 18-15, áður en fyrsta leikhluta lauk. Valdís Ósk jafnaði leikinn 22-22 snemma í öðrum leikhluta og jafnræði var með liðunum næstu mínúturnar. Fimm stig frá Tess færðu Tindastóli sex stig forystu í hálfleik, 28-34. Stólastúlkur héldu forystunni í þriðja leikhluta og munurinn yfirleitt fimm til tíu stig. Íris Ásgeirsdóttir og Tess fóru fyrir sínum liðum í byrjun fjórða leikhluta en heimastúlkur náðu að minnka muninn í þrjú stig þegar tæpar átta mínútur voru eftir, 57-60, en Eva Rún og Tess gerðu næstu körfur fyrir Tindastól og heimastúlkur náðu ekki að jafna leikinn. Lokatölur voru 63-68 fyrir Tindastól. Tess gerði helming stiga Tindastóls eða 34 og tók 17 fráköst.

Tölfræði á vef KKÍ >

Fleiri Tindastólsstúlkur náðu sér á strik í dag þegar liðin mættust öðru sinni. Leikurinn var jafn framan af en vörn Stólastúlkna var í miklum ham í öðrum leikhluta en þá gerðu heimastúlkur aðeins fjögur stig. Staðan í hálfleik 18-27 eftir að lið heimastúlkna gerði fjögur síðustu stig hálfleiksins. Íris fór sem fyrr fyrir liði Hamars og hún minnkaði muninn í fimm stig, 30-35, þegar sjö mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Kristín Halla, Marín Lind og Tess breikuðu bilið og staðan 30-40 fyrir fjórða leikhluta sem bauð upp á talsvert opnari leik þar sem lið Tindastóls fór á kostum og gerði 31 stig gegn ellefu stigum Hamars. Lokatölur því 41-71. Tess var stigahæst sem fyrr með 23 stig en Marín Lind gerði 14 stig, tók sex fráköst og átti sjö stoðsendingar.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir