Tveir skellir Stólastúlkna fyrir sunnan

Kristín Halla í frákastabaráttunni gegn Fjölni. MYND: Af heimasíðu Fjölnis.
Kristín Halla í frákastabaráttunni gegn Fjölni. MYND: Af heimasíðu Fjölnis.

Kvennalið Tindastóls skottaðist suður um helgina og spilaði tvo leiki í 1. deild kvenna gegn tveimur bestu liðum deildarinnar. Stelpurnar urðu að sætta sig við tvo ósigra, fyrst gegn liði Grindavíkur 94-66 og síðan gegn Fjölni í Grafarvoginum en sá leikur endaði 99-80.

Stelpurnar eru við það að klára langa útileikjahrinu en liðið spilar nú sex leiki í röð á útivelli. Ansi sérkennileg uppröðun leikja en reyndar var heimaleik gegn Fjölni frestað nú nýlega vegna veðurs. Stelpurnar bæta einum útileik í sarpinn þegar þær mæta liði ÍR þann 5. janúar en síðan tekur hver heimaleikurinn við af öðrum.

Marín Lind gerði fyrstu stigin í Grindavík en síðan tóku heimastúlkur völdin og höfðu betur í öllum leikhlutum en staðan í hálfleik var 48-33. Lið Tindastóls átti ágætan þriðja leikhluta en heimastúlkur, sem rétt mörðu lið Tindastóls í Síkinu í haust, reyndust of stór biti að þessu sinni. Tess var stigahæst með 32 stig en næstar henni voru Marín Lind Ágústsdóttir með tíu stig og Eva Rún Dagsdóttir með níu en hún hirti líka átta fráköst. Frákastahæst var Kristín Halla Einarsdóttir með 11 stk. og þar af sex sóknarfráköst. Lokatölur sem fyrr segir 94-66.

Tölfræði á vef KKÍ >

Síðari leikur helgarinnar fór fram í Dalhúsi í Grafarvoginum en þar mættu stelpurnar kanalausu liði Fjölnis. Heimastúlkur náðu góðu forskoti strax í fyrsta leikhluta, 30-18, og bættu við það í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 50-31. Lið Tindastóls beit enn á ný frá sér í þriðja leikhluta og minnkuðu þá muninn í þrettán stig en Fjölnisstúlkur reyndust sterkari á lokakaflanum og sigruðu 99-80. Aðeins fimm stúlkur Tindastóls komust á blað í stigaskorinu og var Tess sem fyrr stigahæst, átti fínan leik með 42 stig og tíu fráköst. Líkt og í leiknum í Grindavík voru það Marín Lind og Eva Rún sem voru drjúgar í stigaskorinu; Marín með 19 stig en Eva með 15. Kristín Halla og Valdís Ósk Óladóttir gerðu síðan tvö stig hvor og þar með er það upptalið.

Tölfræði á vef KKÍ >

Stórleikur fer fram í Síkinu á sunnudaginn kl. 16:00 en þá taka Stólastúlkur á móti Dominos-deildar liði Breiðabliks í Geysisbikarnum. Stelpurnar spila síðan þrjá heimaleiki í janúar og vonandi færir heimavöllurinn liðinu góðan kraft. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir