Frábær sigur á Skagastúlkum dugði ekki fyrir sæti í Pepsi Max-deildinni

Að sjálfsögðu var stillt upp í liðsmynd að leik loknum. MYND: ÓAB
Að sjálfsögðu var stillt upp í liðsmynd að leik loknum. MYND: ÓAB

Stærsti leikurinn í sögu fótboltans á Króknum fór fram í kvöld en þá spiluðu Stólastúlkur síðasta leik sumarsins í Inkasso-deildinni og voru enn í möguleika með að komast upp í efstu deild. Þrátt fyrir dramatískan sigur á liði ÍA komst liðið þó ekki upp í deild hinna bestu því FH vann nauman 1-0 sigur á liði Aftureldingar og tryggðu sér því annað sætið í Inkasso. Lokatölurnar á Króknum voru hins vegar 4-1 og Murielle Tiernan tryggði sér markakóngstitilinn með því að skora tvö markanna.

Það var smá sunnangola þegar leikurinn hófst en náttúruöflin voru búin að vinda mestu bleytuna úr himninum. Þó rigndi af og til á meðan leikurinn fór fram en undir lokin var veðrið hið besta. Að sjálfsögðu var septemberkvöldið vel rökkvað og áhorfendur fengu því að upplifa leik í flóðljósum á Króknum. Fín mæting var á völlinn og stemningin eins og í óld deis. 

Jafnræði var með liðunum framan af leik og spil heimastúlkna á köflum stórkarlalegt. Það átti greinilega að fara hraðferð upp völlinn með því að reyna að hleypa þeim Murielle, Vigdísi og Hugrúnu á skeið. Lið Tindastóls skapaði sér nokkur ágæt færi en stelpunum voru mislagðir fætur þegar kom að því að slútta. Murr virtist þó hafa brotið ísinn þegar skammt var til leikhlés, fékk boltann eftir aukaspyrnu og lagði hann laglega í mark ÍA en línuvörðurinn lyfti flagginu og dæmdi rangstæðu heimamönnum til mikillar gremju. Staðan í hálfleik var 0-0.

Stólastúlkur fóru ekki vel af stað í síðari hálfleik. Illa gekk að koma boltanum á Murr og Vigdísi og það nýttu Skagastúlkur sér og refsuðu heimastúlkum á 63. mínútu. Þá skoraði Eva María Jónsdóttir með skalla eftir aukaspyrnu. Liðskonur Tindastóls spýttu nú í lófana og hófu að færa sig betur upp kantana og þar fór Laufey mikinn og átti nokkrar flottar sendingar fyrir markið. Loks kom að því að stelpurnar jöfnuðu og nú verður blm. Feykis að viðurkenna að hann er ekki viss hvort það var María Dögg eða Bryndís frá Brautarholti sem skoraði. Markið kom á 76. mínútu en fjórum mínútum síðar var það Murielle sem sneiddi boltann laglega í fjærhornið eftir að hafa fengið ágæta sendingu inn á teiginn. Nú fóru vönduðustu menn og konur á límingunum og misstu sig í að hrópa áfram Tindastóll sem menn hafa varla gert á vellinum á þessari öld.

Takk fyrir sumarið!

Og ekki var allt búið og menn áttu eftir að missa sig enn meir. Það tók Murielle aðeins tvær mínútur að bæta við þriðja marki Tindastóls og það mark var með Murr stimplað yfir sig. Hún átti eiginlega ekkert erindi í boltann en hún setti í túrbóið, náði boltanum, stakk sér fram fyrir varnarmann ÍA og inn á teiginn þar sem hún náði af harðfylgi að pota boltanum fram hjá markverði gestanna. Maður hristir eiginlega bara hausinn þegar hún gerir svona lagað – þetta er ekki hægt!? Fimm mínútum síðar var sigurinn gulltryggður þegar Fríða Halldórsdóttir varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark eftir hornspyrnu Tindastóls. Þá var nú bara beðið eftir að dómarinn flautaði leikinn af sem hann og gerði nokkrum mínútum síðar.

Stelpurnar voru að sjálfsögðu pínu svekktar að hafa ekki náð sætinu í Pepsi Max-deildinni en þær tóku fljótt gleði sína og fögnuðu frábærum árangri í sumar. Árangurinn hefur verið framar vonum og spádómum spekinga og hann er ekki síst frábær í ljósi þess að liðið hefur orðið fyrir mörgum skakkaföllum í sumar. Í kvöld var liðið án Jackie Altschuld, Kristrúnar og Kristu Sólar en þær hefðu allar eflaust byrjað leikinn ef þeirra hefði notið við. Þá hefur Jóna María misst af nánast allri leiktíðinni eftir höfuðmeiðsli snemma sumars. Enn og aftur er því tilefni til að klappa fyrir þeim stúlkum sem hafa komið inn í liðið og skilað sinni vinnu með sóma.

Eins og svo oft áður þá reyndist Murielle á skotskónum og þvílíkur happafengur sem hún hefur verið fyrir Tindastól. 52 mörk takk í 35 leikjum á tveimur sumrum með Stólastúlkum. Hún endaði sumarið með 24 mörk í Inkasso og þrjú í bikar. Þó það virðist stundum eins og hún sé ein í liðinu þá er það að sjálfsögðu ekki þannig og samherjar hennar lögðu allt í sölurnar fyrir sigur í kvöld eins og þær hafa gert í allt sumar. Það er ekki hægt að biðja um meira.

Takk fyrir sumarið, til hamingju og áfram Tindastóll!   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir