Valsmenn kipptu fótunum undan Stólunum

Raggi Nat í baráttunni við Axel og Helga Rafn. MYND: HJALTI ÁRNA
Raggi Nat í baráttunni við Axel og Helga Rafn. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Valur mættust í Síkinu í gærkvöldi í 15. umferð Dominos-deildarinnar. Valsmenn hafa verið Stólunum erfiðir upp á síðkastið, töpuðu ósanngjarnt fyrir ári í Síkinu eftir framlengingu en unnu Stólana svo í framlengingu í haust. Stuðningsmenn Stólanna voru engu að síður bjartsýnir fyrir leikinn í gær, enda nýr kani liðsins, Deremy Geiger, loks kominn með leikheimild. Það dugði þó ekki til því Valsmenn, með Austin Bracey óstöðvandi, unnu og þurftu ekki framlengingu til að þessu sinni. Lokatölur 89-91 og lið Tindastóls hefur nú tapað þremur af fjórum leikjum sínum í janúar.

Það vantaði ekki að leikur liðanna var spennandi og jafnvel skemmtilegur (fyrir aðra en stuðningsmenn Stólanna) enda munurinn aðeins einu sinni meiri en fjögur stig en liðin skiptust á um að vera yfir. Það voru tveir fyrrum Tindastólsmenn sem gerðu fyrstu körfur Vals. Fyrst setti PJ Alawoya niður þrist og síðan kviknaði á Austin Magnúsi Bracey. Sá kappi samdi við Stólana fyrir nokkrum misserum en skilaði sér aldrei norður, hann átti hreint magnaðan leik með Valsmönnum í gær. Lið Tindastóls leiddi 27-23 eftir fyrsta leikhluta og Stólarnir hittu vel fyrir utan 3ja stiga línuna í leiknum, enduðu með 47% nýtingu, sem var eins gott því ekki gekk heimamönnum nógu vel að sækja inn í vörn Valsmanna. Oft hafa Tindastólsmenn náð yfirhöndinni í leikjum sínum í Síkinu í öðrum leikhluta en sú varð ekki raunin að þessu sinni. Stólarnir komust í 29-23 en Valsmenn svöruðu með 12-2 kafla og komust yfir. Boltinn gekk vel hjá gestunum og oftar en ekki fundu þeir Bracey frían og hann setti nánast öll skot sín í leiknum niður. Ef Stólarnir ætluðu að loka á Bracey þá opnaðist fyrir PJ eða Ragga Nat. 

Jafnt var í hálfleik, 47-47, og baráttan var mikil í síðari hálfleik en hvorugt lið náði nógu stóru áhlaupi til að skilja andstæðinginn eftir. Þetta var því spurning um hvort liðið gerði færri mistök á lokakafla leiksins. Valur var tveimur stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 72-74, og síðustu mínúturnar var oftar en ekki allt jafnt. Bilic jafnaði leikinn 88-88 þegar tæp mínúta var eftir og fékk víti að auki sem hann skilaði niður og kom Stólunum yfir. Hann fékk síðan séns á að koma Stólunum þremur stigum yfir þegar hálf mínúta var eftir en sterk vörn gestanna gerði honum erfitt fyrir að leggja boltann í körfuna og Pavel hirti frákastið. Ísraelinn Naor gerði þá ágæta körfu og kom Val aftur yfir. Stólarnir tóku leikhlé og Pétur fékk í kjölfarið galopið færi fyrir utan en skotið vildi ekki niður. Það tók Stólana of langan tíma að brjóta á Valsmönnum og Bracey var sendur á línuna þegar innan við tvær sekúndur voru eftir. Hann setti því fyrra skotið niður og klikkaði á því síðara til að gefa Stólunum engan séns á að svara þar sem tíminn rann út. Tveggja stiga sigur Vals því staðreynd.

Í viðtali við Vísi.is segir Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, að Stólarnir hafi aldrei fundið lausn á boltaskríni hjá PJ og Naor og það hafi verið ástæðan fyrir tapinu sem og nær fullkominn leikur hjá Bracey. Lið Vals hefur styrkt sig í byrjun árs og nýji leikmaðurinn, Naor Sharabani, virkaði traustur, hann var skynsamur á boltanum og spilaði honum vel (8 stoðsendingar) auk þess sem hann gerði 16 stig. Bracey gerði 32 stig í leiknum og setti niður tíu af tólf skotum sínum utan vítaskota. PJ var með 22 stig og 13 fráköst, Pavel gerði aðeins tvö stig en tók tíu fráköst og átti tíu stoðsendingar og þá skilaði Raggi Nat ellefu stigum. Valsmenn voru í raun vel að sigrinum komnir.

Ný leikmaður Tindastóls, Deremy Geiger, var ekki með neina sýningu í leiknum. hann var nokkuð öflugur fyrir utan og setti niður fimm af níu 3ja stiga skotum sínum en kappinn skilaði engu frákasti og aðeins tveimur stoðsendingum. Þá hitti Pétur á slæman dag á skrifstofunni og skilaði tveimur stigum og sex fráköstum. Bilic var stigahæstur með 20 stig, Geiger var með 18, Brodnik 16, Simmons 9 og Helgi Rafn 8.

Næstkomandi fimmtudag fara strákarnir norður á Akureyri og spila við Þór og sunnudaginn þar á eftir mæta Íslandsmeistararnir í KR á Krókinn. Það er því skammt stórra högga á milli en nú þurfa strákarnir að hrista af sér slenið og fara að hala inn stig. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir