Vel heppnað skíðagöngumót í Fljótum

160 manns tóku þátt í mótinu. Myndir: Hermann Hermannsson.
160 manns tóku þátt í mótinu. Myndir: Hermann Hermannsson.

Ferðafélag Fljóta stóð að vanda fyrir árlegu skíðagöngumóti í Fljótum á föstudaginn langa. Þar sem snjóa hafði tekið upp í rásmarkinu var tekin ákvörðun um að færa markið upp á Holtsdal og voru keppendur fluttir þangað í rútu ef þeir óskuðu þess en aðrir hituðu upp fyrir keppnina og gengu þangað, um eins kílómeters vegalengd.

Keppt var í mörgum flokkum. Í 20 km göngu í karla og kvennaflokki á aldrinum 16-34, 35-49, 50-59 og 60 ára og eldri. Í vegalengdunum 5 km og 10 km var keppt í karla og kvennaflokkum 12-15 ára og 16 ára og eldri. Einnig var keppt í flokki drengja og stúlkna í 2,5 km göngu fyrir 6-11 ára og í 1 km göngu í aldursflokknum 3-5 ára.

Það var Sævar Birgisson sem kom fyrstur í mark í 20 km göngu á tímanum 1:20:29. Fyrsta konan í mark í 20 km göngu var Elsa Guðrún Jónsdóttir á tímanum 1:26:40. Í 10 km göngu sigraði Jón Elvar Númason á tímanum 00:56:06 í karlaflokki en fyrsta konan í mark var Sunna Lilja Björnsdóttir með tímann 01:08:49.  Í 5 km göngu kom Birgitta Birgisdóttir fyrst í mark 00:30:43 en fyrstur karla var Þorsteinn Þorvaldsson sem gekk vegalengdina á tímanum 00:30:55.

Alls tóku 160 manns þátt í keppninni á aldrinum 4-78 ára.

Að loknu vel heppnuðu móti var boðið til kaffisamsætis á Ketilási þar sem borðin svignuðu undan kræsingum að hætti Fljótamanna auk þess sem verðlaun voru veitt. 

Nánari upplýsingar um árangur keppenda má sjá á Tímataka.net og fleiri myndir frá keppninni er hægt að skoða á Facebooksíðu keppninnar.

Yngstu keppendurnir ásamt fylgdarmönnum.  
 
 
 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir