Verður meistaraflokkafótbolti á Króknum næsta sumar?

Aðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls fór fram í síðustu viku og fyrir fundinum lágu almenn aðalfundarstörf. Sunna Björk Atladóttir, sem tók við stjórnartaumum knattspyrnudeildar til bráðabirgða í vetur gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og stóð því til að kjósa nýjan formann. Enginn gaf þó kost á sér í það starf og kosningu því eðlilega frestað til síðari tíma. En hvað er félag án formanns?

Því hefur verið stungið að Feyki að ef knattspyrnudeildin fer formannslaus inn i veturinn gæti niðurstaðan orðið sú að aðalstjórn Tindastóls taki við stjórninni og hún sé ekki að fara að reka knattspyrnudeildina. Það gæti í versta falli þýtt að meistaraflokkar Tindastóls yrðu dregnir úr keppni næsta sumar.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að það yrði algert skipsbrot fyrir meistaraflokka félagsins ef ekki fæst formaður sem allra fyrst,“ segir Donni Sigurðsson, þjálfari mfl. kvenna hjá félaginu. „Við erum með frábæra hópa og flott þjálfarateymi sem mjög gaman er að vinna með, hugsa ég. Við elskum félagið okkar og viljum aðeins það besta fyrir Tindastól svo við megum alls ekki láta það gerast að sigla þessu í þrot.“

Það er því ljóst að ef ekki á illa að fara fyrir fótboltanum á Króknum þá þarf fólk til starfa fyrir félagið. „Ég vonast eftir kraftmiklum einstakling með flottum hópi fólks sem er tilbúinn að halda áfram þeirri flottu vegferð sem knattspurnudeildin er á,“ segir Donni og bætir við: „Og við öll, sem fyrir erum, erum til í að hjálpa til eins mikið og hægt er.“

Þannig að oft var þörf en nú er nauðsyn!

Fleiri fréttir