„Vonir mínar eru þær að ég nái að hjálpa liðinu mínu að bæta sig eins mikið og hægt er“/Erlendir leikmenn í boltanum

Lauren í leik með Tindastól í sumar. MYND: ÓAB
Lauren í leik með Tindastól í sumar. MYND: ÓAB

Í 26. tölublaði Feykis fengum við Lauren-Amie Allen í þátt sem kallast Erlendir leikmenn í boltanum.

Stelpurnar í Tindastóli duttu í lukkupottinn þegar þau fengu markvörðinn Lauren-Amie Allen til liðs við sig. Lauren er 23 ára stúlka og hefur spilað með Crystal Palace í Englandi og er ein af þremur útlendingum sem spila með meistaraflokki kvenna. Feykir setti sig í samband við nýju stelpurnar og að þessu sinni er það Lauren sem svarar nokkrum laufléttum.

Hvernig kom það til að þú ert að spila fótbolta á Íslandi og hvar spilaðir þú áður en þú komst hingað? Mig langaði að fara aðeins út fyrir ramman og skoraði á sjálfa mig að prófa nýtt land og nýtt umhverfi og Ísland varð fyrir valinu. Áður var ég að spila með Crystal Palace í Englandi.

Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? Hvað það er alltaf rosalega kalt…hahaha og hvað veðrið breytist mikið og snöggt á hverjum degi.

Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls? Þetta er frábært kvennalið og þær tóku mig inn í hópinn strax fyrsta daginn, þannig að mér leið mjög vel að vera komin og félagið tók einnig mjög vel á móti mér, þannig að það er mjög gott að vera partur af Tindastóls fjölskyldunni.

Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn? Það er afar erfitt að velja einungis einn liðsfélaga, við erum allar vinkonur, en auðvitað bý ég með Mur og Jackie, þannig að við eyðum miklum tíma saman. En svo verð ég að nefna Bryndísi þar sem ég er alltaf að kvabba á henni á hverjum degi en hún brosir bara og er alltaf tilbúin að aðstoða mig. Hún er bara frábær manneskja og það er yndislegt að vera í kringum hana. Hún er frábær leiðtogi og fyrirliði og svo enn betri vinur. Við erum svo heppnar að eiga hana að, það þyrftu allir að eiga eina Bryndísi.

Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? Vonir mínar eru þær að ég nái að hjálpa liðinu mínu við að bæta sig eins mikið og hægt er, þannig að við náum að vera ofarlega í deildinni í lok sumars.

Hvaða leikmaður hefur verið þér fyrirmynd? Bróðir minn hefur alltaf verið fyrirmyndin mín í fótboltanum, hann er einnig markvörður og mig langaði alltaf að verða eins góð og hann. En svo hef ég litið mikið upp til John Terry, hann er svo frábær leiðtogi og það finnst mér svo mikilvægt fyrir liðsheildina.

Hvað gerir þú annað hér á Sauðárkróki en að spila fótbolta? Ég vinn hjá Ingimari Páls í hestaleigunni, fer í reiðtúra með börnum og ferðamönnum um bæinn. Við æfum svo á kvöldin og ég fer þó nokkuð til Akureyrar að æfa með markmannsþjálfaranum Perry. Mér finnst gott að slappa af með Mur og Jackie. Við reynum líka að ferðast um Ísland og skoða landið.

Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? Það erfiðasta við að vera í öðru landi er pottþétt að hafa ekki fjölskylduna nálægt og hundinn minn. Fjölskyldan mín hefur alltaf stutt mig í öllu sem ég geri og ég væri ekki hérna nema vegna þeirra. Enda er ég svo þakklát að vera hér og er virkilega að njóta þess.

Stutta spilið:

Uppáhalds Íslenska snarlið þitt? Súkkulaðimjólk eða Hrískaka

Lag sumarsins? Íslenska lagið er Sumargleðin, Erlenda lagið er “She don’t know she’s beautiful“  með Sammy Kershaw

Skrítnasti maturinn sem þú hefur bragðað á Íslandi? Hákarl.

Uppáhalds fótboltaliðið þitt? Chelsea FC og Crystal Palace FC

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir