Bókin um heiðursborgarann Eyþór Stefánsson komin út

Sölvi les úr bók sinni um Eyþór. MYNDIR: ÓAB
Sölvi les úr bók sinni um Eyþór. MYNDIR: ÓAB

Í dag fór fram útgáfuhátíð á KK Restaurant á Sauðárkróki í tilefni af útkomu bókarinnar Eyþór Stefánsson tónskáld – Ævisaga sem Sölvi Sveinsson ritaði. Eins og áður hefur komið fram hér á Feyki þá kemur bókin út í tilefni 120 ára fæðingarafmælis Eyþórs sem einnig ber upp á 150 ára byggðarafmæli Sauðárkróks. Eyþór fæddist árið 1901 og var kjörinn heiðursborgari Sauðárkróks á sjötugasta aldursári sínu.

Það var Hjalti Pálsson formaður Sögufélags Skagfirðinga sem opnaði hátíðina og kynnti bók og höfund. Því næst var gestum boðið upp á kaffi og þá var komið að höfundi, Sölva Sveinssyni, að tala um Eyþór og lesa upp úr bókinni. Meðal annars las hann lýsingu á brúðkaupsdegi þeirra heiðurshjóna, Eyþórs og Sissu, og sagði frá listamannsferli Eyþórs en hann samdi ríflega 70 lög og lék vel á annað hundrað hlutverk með leikfélögum á Sauðárkróki.

Að auki las Sölvi úr nýútkominni smásagnabók sinni, Lög unga fólksins, og að sjálfsögðu áritað höfundur bækur sínar af miklum móð.

Í lýsingu á bókinni segir: „Eyþór Stefánsson (1901-1999) bjó alla ævi á Sauðárkróki og var mikilvirkur í menningarlífi staðarins, kenndi í áratugi við skólana í bænum, var fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans 1965–1974 og viðloðandi kirkjusöng í 60 ár, þar af organisti 1929-1972. Hann var atkvæðamikill leikari, sté á svið í 118 hlutverkum, stjórnaði tugum leiksýninga og hlaut gullmerki Félags íslenskra leikara. Hann byrjaði ungur að semja lög og yfir 30 sönglög hans hafa verið gefin út, þekktust þeirra Lindin, Mánaskin og Bikarinn. Hann var í hópi bestu sönglagahöfunda 20. aldar og heiðursfélagi í Tónskáldafélagi Íslands. Eiginkona Eyþórs var Sigríður Anna Stefánsdóttir (1905-1992) og stóð honum þétt við hlið eins og hann sagði, söng í kirkjukórnum og tók þátt í leiklistinni. “

Sveitarfélagið Skagafjörður styrkti útgáfu bókarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir