Fullt út úr dyrum á Kaffi Króki á útgáfuhátíð Sögufélags Skagfirðinga

Hjalti og Sölvi kampakátir með viðtökurnar í dag. MYNDIR: ÓAB
Hjalti og Sölvi kampakátir með viðtökurnar í dag. MYNDIR: ÓAB

Í dag fór fram á Kaffi Króki útgáfuhátíð og kynning vegna nýrrar bókar Sölva Sveinssonar, Dagar handan við dægrin, en það er Sögufélag Skagfirðinga sem gefur bókina út. Fullt var út úr dyrum og frábær stemning.

Hjalti Pálsson frá Hofi, formaður stjórnar Sögufélagsins, fór nokkrum orðum um bókina og kynnti síðan Sölva til leiks sem sannarlega var á heimavelli, umkringdur síungum skólafélögum og góðum kunningjum. Hann þakkaði mætinguna og þótti talsvert til þess koma að einhverjir höfðu lagt á sig ferðalag frá Noregi og Ástralíu til að vera viðstaddir kynninguna.

Í kynningu á Dagar handan við dægrin á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga segir um bókina: –Margir þekkja „jólakver“ þau er Sölvi hefur gefið út og sent vinum sínum síðustu 15-20 árin. Efni þessarar bókar er að uppistöðu úr þessum jólakverum, þau sem fjallað hafa um Krókinn en hann hefur víða aukið í og breytt og bætt við nokkrum nýjum köflum. Óhætt er að segja að þessi bók sé bráðskemmtileg aflestrar, ekki aðeins fyrir Króksara, heldur höfðar hún til allra sem þykir gaman að lesa góðan og safaríkan texta því að Sölvi er bráðfimur frásegjari, leyfir hér fólki að skyggnast undir hönd sér og horfa á mannlífið eins og hann skynjaði það þegar hann var að alast upp á Sauðárkróki eftir miðja 20. öld. Bókin er 368 blaðsíður með nokkuð á annað hundrað ljósmyndum.–

Upplestur Sölva úr nokkrum köflum bókarinnar vakti mikla lukku og skemmti fólk sér hið besta. Á kaffitíma var að sjálfsögðu boðið upp á kaffi og kruðerí. Bókin sjálf var seld á kynningarverði í dag og rann út eins og heitar lummur og Sölvi kepptist við að árita.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum voru margir spenntir að kíkja í bókina, skoða skemmtilegar myndir og rifja upp æskuna og gamlar góðar sögur í félagi við Sölva. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir