Gervigrasvöllur að fæðast á Króknum

Í síðustu viku var unnið við að setja gúmmí undirlag á völlinn. MYNDIR: ÓMAR BRAGI
Í síðustu viku var unnið við að setja gúmmí undirlag á völlinn. MYNDIR: ÓMAR BRAGI

Nú er unnið hörðum höndum við að klára gerð gervigrasvallar á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki og eru þau ófá handtökin, hjá úrvalsliði iðnaðarmanna, sem unnin hafa verið þar í vetur, vor og nú í byrjun sumars. Margir hafa haft gaman af að fylgjast með framgangi mála en unnið hefur verið við völlinn og umhverfi hans hvenær sem færi hefur gefist á þessum tíma. Nú í vikunni var lokið við að leggja gúmmilag á völlinn og styttist því í að gervigrasið græna og væna líti dagsins ljós.

Framkvæmdir við völlinn hófust 17. október síðastliðinn eða um viku áður en vetur gekk formlega í garð. Daginn áður höfðu reyndar ungir knattspyrnuiðkendur tekið fyrstu skóflustungurnar en þann 17. voru stóreflis vinnuvélar mættar til leiks og grasinu af miðvelli íþróttasvæðisins var rutt af og vinnusvæðið afmarkað.

Fyrir lok októbermánaðar var búið að steypa undirstöður fyrir flóðlýsingu og áfram var unnið í undirlagi vallarins og slegið upp fyrir vegg við austurenda vallarins og þeim byggingum sem þurfti að reysa utan um hitakerfi vallarins. Í lok nóvember var frostið 18 gráður en hvergi var slegið af og þann 19. desember var verið að steypa. Það frysti og hlýnaði til skiptis og völlurinn stundum frosinn og stundum á floti.

Ómar Bragi Stefánsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, hefur verið duglegur að mynda og segja frá framkvæmdum á FB-síðu stuðningsmanna knattspyrnudeildar Tindastóls og myndirnar sem hér fylgja eru allar frá honum fengnar. Eftir talsverða vetrartíð fyrstu mánuði ársins fóru framkvæmdir við völlinn aftur á fullt í byrjun mars. Þann 26. apríl skrifar Ómar: „Það má segja að allt sé á fleygiferð á íþróttasvæðinu okkar ... Verið er að jafna völlinn undir hitalagnir. Reikna má með að í næstu viku verði hafist handa að leggja hitalagnirnar sem eru alls 36 km að lengd. Sú vinna tekur væntanlega um tvær vikur. Þá þarf að setja sand yfir það og síðan kemur grasið. Það styttist í að þetta verði klárt.“

Veðrið hefur ekki beinlínis leikið við iðnaðarmennina síðan en svæðið er þó allt að verða hið glæsilegasta. Malbikað hefur verið við vallarhús og umhverfi þess tekið í gegn, flóðljósin eru komin upp, búið er að þökuleggja þau sár sem mynduðust í kringum völlinn og helluleggja og komin er myndarleg háreyst girðing við austurenda vallarins til að tryggja að andstæðingar Tindastóls skjóti ekki á bílana á Skagfirðingabrautinni. Þá er verið að undirbúa malbikun á bílastæðum sunnan vallarsvæðisins, eða svokölluð kennarastæði við Árskóla.

En nú styttist í að allt verði klárt og einhverjir bíða sennilega spenntir eftir að sjá gervigrasmotturnar dúkka upp og mynda fagurgræna vin sem verður í blóma allt árið um kring og ætti að bylta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og -æfinga í Skagafirði. Bjartsýnustu menn vona að völlurinn verði klár 17. júní en stefnt er á að nota hann á Landsbankamótinu sem verður síðustu helgina í júní.

Myndirnar hér að neðan, sem teknar voru af Ómari Braga, eru í nokkurn veginn réttri tímaröð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir