Jólalegt á Króknum í gær
Það fór aldrei svo að storminn lægði ekki – í það minnsta í nokkra klukkutíma. Ágætis veður var í gær á Norðurlandi vestra og ljósmyndari Feykis tók myndavélina með sér einn, tvo rúnta um Krókinn af því tilefni.
Snjónum hefur heldur betur kyngt niður á Króknum síðustu dagana þannig að elstu menn eru farnir að rifja upp daga sem aðeins elstu menn muna. Þá er vindurinn sem fylgir ofankomunni ekki að gera neitt fyrir ökumenn annað en að stöðva framgang þeirra.
Þegar ofsanum loksins slotaði á fimmtudegi þá hafði snjórinn kaffært flest sem fyrir augu bar og skapað sannkallaða ævintýraveröld fyrir þá sem hafa gaman af að sleðast, grafa og velta sér í fönninni.
Ljósmyndarinn tölti um Gamla bæinn á Króknum upp úr hádegi og smellti síðan nokkrum myndum af stemningunni í Skagfirðingabúð og nágrenni en ljóst var að margur notaði tækifærið og gerði jólainnkaupin á meðan ofankoman og vindurinn héldu sig til hlés. Og jólalegra verður varla en þessa dagana?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.