Öskudagur í öllum regnbogans litum

Það var ýmislegt spennandi sem hægt var að nálgast í dag en ekki allt hollt. MYNDIR: ÓAB OG SG
Það var ýmislegt spennandi sem hægt var að nálgast í dag en ekki allt hollt. MYNDIR: ÓAB OG SG

Í dag var einn besti dagur ársins, öskudagurinn síkáti. Fjölmargir krakkar þustu á lappir í morgunsárið og skelltu sér í tilheyrandi öskudagsgervi, þó metnaðurinn hafi verið mismikill eins og gengur. Eftir nokkru var að slægjast því fyrirtæki, stofnanir og verslanir um víðan völl buðu börnunun eitthvað spennandi í staðinn fyrir tónlistarflutning.

Óhætt er að fullyrða að ágætis krakkastreymi hafi verið í Nýprent á Króknum, höfuðstöðvar Feykis, enda veðrið hið besta fyrir nammirölt, stillt en pínu kalt. Eins og jafnan voru margir hópar sem spreyttu sig á Gamla Nóa og Alúettu, sömuleiðis var Krummi svaf í klettagjá fluttur að minnsta kosti fjórum sinnum með tilheyrandi loka-hummi. Þetta eru nú sennilega ekki vinsælustu lögin hjá mörgum verslunarmanninum en þó sumir syngi þetta leikandi létt og án mikillar æfingar þá eru sumir að tefla á tæpasta vað með því að opinbera söng sinni fyrir ókunnugum.

Þó ekki sé nú ætlunin að vera með leiðindi þá þótti lagavalið í heildina nokkuð einhæft. Þó voru nokkrir flytjendur sem glöddu tóneyru. Piltar úr Varmahlíð komu vel æfðir með Mýrdalssand þeirra GCD-manna og léku á hljómborð og ukulele og sungu raddað. Höfðu meira að segja útvegað sér peysur merktar G, C og D en urðu fyrir smá áfalli áður en lagt var í hann í morgun því G forfallaðist. C og D létu það ekki stoppa sig, enda var það bara bassaleikarinn sem datt úr leik... ;o)

Önnur lög sem má nefna til sögunnar er Nammið mun sigra, Gamli gítarinn, örstutt útgáfa af Glaðasti hundur í heimi með smá Queen ívafi, Lítill fugl, áramótaskaupslagið síðasta og skólasöngur Árskóla. Bjarnastaðabeljurnar voru alveg látnar í friði að þessu sinni. Meðal þeirra sem heimsóttu Feyki voru Charlie Chaplin, ótal ofurhetjur, Lína langsokkur, Donald Trump, Cerial Killer, Tindastólskempur, einhyrningar, egg og beikon, Harry Potterar og fleiri flottir karakterar.

Starfsfólk Nýprents og Feykis þakkar skemmtunina og er þegar farið að hlakka til næsta öskudags. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá þessum fína degi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir