Teymir forystuhrútinn á hesti

Smali, hestur, hundur hrútur. Eysteinn Steingrímsson í sínum fyrstu ferðum í eftirleitum í Kolbeinsdal. Mynd af FB-síðu kappans.
Smali, hestur, hundur hrútur. Eysteinn Steingrímsson í sínum fyrstu ferðum í eftirleitum í Kolbeinsdal. Mynd af FB-síðu kappans.

„Þetta var bæði grín og alvara til að byrja með,“ segir Eysteinn Steingrímsson, bóndi á Laufhóli, spurður út í forystuhrútinn Móra sem Eysteinn hefur haft með sér í leiðangra í Kolbeinsdal að leita eftirlegukinda.

Hrúturinn er bandvanur og hafði Eysteinn oft velt því fyrir sér hvort hægt væri að teyma hann með sér á hesti. „Ég átti alltaf eftir að stíga þetta skref að prófa. Svo þegar ég þurfti að fara upp í afrétt þá fannst mér alveg kjörið að hafa hann með og sem var upphafið að allri þessari vitleysu,“ útskýrir Eysteinn.

Hann segir það hafa verið skemmtilega tilraun að athuga hvort hægt væri í raun og veru að þetta gengi allt upp gagnvart hesti og hundi og að hann myndi teymast langa leið.

„Ég fór með hann frá Fjalli og upp á Heljardal og það voru smá stympingar að fá hann með mér í fyrstu. Hundurinn var áhugasamur líka.“ Eysteinn segir þetta hafa tekið ótrúlega stutta stund að smella saman.

„Það væri klárlega hægt að nýta þetta í einhverjum tilfellum og væri til bóta. Vandinn er sá, og ég hef rekið mig á, er að fá féð sem hangir eftir, að samlagast nýrri kind. Þegar ég fór með hann fyrst þá skildi ég hann eftir og komu nokkrar kindur með honum til baka. Svo fór ég með hann aftur en þá kom hann bara einn heim,“ segir Eysteinn en hugsunin er að forystuhrúturinn lokki aðrar kindur með sér þar sem hann skilar sér ætíð sjálfur. „Það getur líka komið upp sú aðstaða að það geti verið gott að hafa alvöru kind með sem fer á undan og geri slóð í snjóinn. Þannig að þetta er allt í útfærslu.“

Hundarnir ómetanlegir

Alls hefur Eysteinn farið sex sinnum í dalinn en ein stærri smölun var skipulögð með fleirum. Hann segist ekki hafa farið erindisleysu því alltaf hafi hann komið með kindur til byggða. Ástæða þess að svo margar kindur voru eftir í afrétt má rekja til þess að gangnadaginn sjálfan heltist yfir leitarfólk svo þykk þoka að ekki sást handa skil. Ekki var farið aftur þó vissulega hefði verið þörf á því.

„Menn hefðu þurft að taka sig saman og fara í aðrar göngur en gerðu það ekki. Menn þögðu þunnu hljóði hvað vantaði margt,“ segir Eysteinn sem vill taka það fram að hann sé ekki sá eini sem er að fara eftir kindum í dalinn. „Brói á Sleitustöðum hefur einnig smalað grimmt. Hann er bara ekki eins duglegur að setja það á Facebook og ég. Hann er örugglega búinn að smala svipað og ég,“ segir Eysteinn og hlær.

Færið hefur heldur þyngst frá því fyrsta eftirleitin var gerð og viðurkennir Eystein að síðasta ferð hans í Tungnahrygginn hafi verið mikið puð, bæði fyrir menn og skepnur. „Það varð að fara á undan og gera slóð og reka svo í hana. Svo má ekki gleyma hundunum, þeir eru alveg ómetanlegir. Ég gæti þetta ekki án þeirra. Þetta hefur verið góður skóli fyrir þá og mig.“

Færslur Eysteins á Facebooksíðu hans hafa vakið verðskuldaða athygli en hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar hafa verið í ferðum hans í eftirleitinni. Einnig heimsótti Eystein hinn skeleggi fréttamaður Stöðvar 2, Magnús Hlynur, og gerði  skemmtilegt innslag í fréttatíma sem einnig var birt á Vísi en það má sjá HÉR. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir