Tvö nýsköpunarverkefni deila fyrstu verðlaunum

Lokahóf Ræsingar í Skagafirði, samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Svf. Skagafjarðar og Kaupfélags Skagfirðinga, fór fram í Verinu á Sauðárkróki í dag. Þá fór fram kynning á þeim þremur nýsköpunarverkefnum sem sem hafa verið í þróun frá því í september í fyrra. Spennan magnaðist þegar kom að því kynna hvaða verkefni yrði verðlaunað fyrir bestu viðskiptaáætlunina en vegleg peningaverðlaun voru í boði.

Verkefnin þrjú, sem valin voru til frekari þróunar af 24 umsóknum bárust, voru verkefni Harðar Sveinssonar um lífræna byggingareinangrun, Hildar Þóru Magnúsdóttur um þurrkun á skjaldkirtli úr sláturdýrum og Regins Grímssonar sem vill byggja einingarhús úr trefjaplasti.

Það var Sigurður Steingrímsson verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem kynnti niðurstöðu dómnefndar, sem var að hans sögn vandasamt val, og að verkefnin hafi öll verið metnaðarfull og greinilegt að mikil vinna hafi verið lögð í hvert og eitt þeirra.

Sigurður greindi frá því að þeir fjármunir, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Svf. Skagafjörður og KS hafi lagt fram til verkefnisins Ræsingar í Skagafirði, voru nýttir í; annars vegar að styðja við verkefnin á meðan þau voru í þróun og hins vegar verðlauna fé sem hljóðar upp á eina milljón króna. Þá var ákveðið að auka við verðlaunaféð.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að tvö af verkefnunum skipta með sér fyrstu verðlaunum, þ.e. verkefni Hildar Þóru Magnúsdóttur og Regins Grímssonar. Ákveðið var að veita verkefni Harðar Sveinssonar sérstök hvatningarverðlaun upp á 200 þúsund krónur. Hlutu því öll verkefnin verðlaun í Verinu í dag og voru um leið eindregið hvött  til frekari framþróunar.

Nánar verður fjallað um Ræsingu í Skagafirði í næsta Feyki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir