Ærslabelgurinn kominn á Hofsós

Belgurinn var settur upp um helgina. Mynd: FE
Belgurinn var settur upp um helgina. Mynd: FE

Ærslabelgurinn sem Íbúasamtökin Byggjum upp Hofsós og nágrenni safna nú fyrir er kominn á Hofsós og nú um helgina var unnið að uppsetningu hans við hliðina á sparkvellinum við skólann. Belgurinn er þó ekki kominn í gagnið og verður ekki blásinn upp fyrr en náðst hefur að safna fé fyrir heildarandvirði hans sem er 2,2 milljónir króna. Nú er söfnunarfé komið upp í 60% af endanlegri upphæð og eru aðstandendur söfnunarinnar hæstánægðir með góð viðbrögð, en betur má ef duga skal.

Að sögn Auðar Bjarkar Birgisdóttur, eins af forsprökkum söfnunarinnar, hefur ýmsum aðferðum verið beitt til að afla fjár til verkefnisins. Auglýst var eftir framlögum, bæði á Facebook, í Sjónhorninu og víðar og sent bréf til allra félagasamtaka austan Vatna. Þar sem aðeins einn belgur var til í landinu var ákveðið að tryggja sér hann, þótt ekki hefði náð að safnast fyrir nema hluta upphæðarinnar, og segir Auður að söfnunin hafi tekið mikinn kipp þegar belgurinn mætti á staðinn og íbúar sáu hlutina gerast. Einnig segist Auður vera mjög ánægð með brottflutta Hofsósinga sem hafi verið duglegir að bæta í púkkið, ásamt einni millifærslu erlendis frá. Þá má nefna að á nýafstaðinni Jónsmessuhátíð stóð Júlía Sverrisdóttir fyrir markaði til styrktar verkefninu og söfnuðust þar 35 þúsund krónur.

Eins og áður segir verður belgurinn staðsettur við hlið sparkvallarins  og því í næsta nágrenni tjaldsvæðisins og því kærkomin viðbót við afþreyingu fyrir gesti þess. Belgurinn er með tímarofa sem stýrir því að loft fer í belginn um níuleytið á morgnana og úr honum aftur á kvöldin þannig að íbúar í nærliggjandi húsum ættu ekki að þurfa að kvíða því að þar verði hoppað og skoppað allan sólarhringinn.

Nú bíður belgurinn þess að öll upphæðn sé komin í hús, fyrr verður hann ekki blásinn upp en þá segir Auður að ætlunin sé að gera sér einhvern dagamun, grilla pylsur og hafa eitthvert húllumhæ.

Sveitarfélagið hefur lýst ánægju sinni með framtakið og mun greiða kostnað við jarðvinnu við uppsetningu belgsins og rekstrarkostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir