Aragrúi hugmynda fæddist á hugmyndafundum vegna uppbyggingar í gamla bænum á Blönduósi

Hugmyndir kynntar. MYND AF HÚNA.IS
Hugmyndir kynntar. MYND AF HÚNA.IS

Síðastliðið miðvikudagskvöld var haldinn í Reykjavík hugmyndafundur vegna deiliskipulags í gamla bænum á Blönduósi. Sambærilegur fundur fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi á þriðjudagskvöld. Um 110 manns sóttu fundina, um 55-60 á Blönduósi og um 50 í Reykjavík.

Fundirnir hófust á því að Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, kynnti sjónarmið sveitarfélagsins gagnvart verkefninu og því næst kynnti Bjarni Gaukur Sigurðsson hugmyndir og áform InfoCapital um uppbyggingu í gamlabænum en félagið hefur keypt nokkrar eignir á svæðinu.

Í frétt á Húnahorninu segir að hugarflugsvinna fundargesta um möguleika svæðisins hafi farið fram að loknum kynningum. Fór vinnan þannig fram að hver og einn fundargestur skrifaði hugmyndir sínar á gula miða og að því loknu voru þær ræddar í hópum. Hver hópur setti svo tillögurnar saman á eitt stórt blað og kynnti fyrir öðrum hópum og fundargestum. Margir tugir ef ekki hundruð tillagna komu fram á fundunum.

Ítarlega umfjöllun um fundina má finna á Húnahorninu en þar kemur m.a. fram að nýbyggingar séu ekki velkomnar í gamla bæjarhlutanum á Blönduósi og að langfæst hótelherberg séu á Norðurlandi vestra. Sjá frétt á Húna >

Þess má geta að Bjarni Gaukur er í viðtali í JólaFeyki sem kemur út nú í vikunni og verður dreift í öll hús á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir