Brúðuleiksýningin Tröll frumsýnd á Akureyri í febrúar

Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga frumsýnir Tröll hjá Menningarfélagi Akureyrar þann 11. febrúar.
Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga frumsýnir Tröll hjá Menningarfélagi Akureyrar þann 11. febrúar.

Brúðuleiksýningin Tröll, sem er ljóðrænt og heillandi brúðuleikhús fyrir börn, verður frumsýnt í Menningarfélagi Akureyrar í Hofi á Akureyri 11. febrúar næstkomandi. Það er brúðuleikhúsið Handbendi, sem er atvinnuleikhús á Hvammstanga, sem setur upp sýninguna.

Tröll er ný frumsamin sýning fyrir fjölskyldur, innblásin af íslensku þjóðsögunum. Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson, leikskáld og hönnuður er Greta Clough og tónskáld er Paul Mosely. Sýningin er 55 mínútur og hentar öllum þriggja ára og eldri.

„Ég trúi á truntum runtum og tröllin mín í klettunum.“  Tröllin eru glöð. Þau sofa - stundum í hundrað ár í einu. Þau hrjóta. Þau strjúka sér um vömbina. Þau hafa það fínt. En einn daginn birtist lítið hús. Tröllunum er svo sem sama um þetta eina hús, en þetta eina hús verður að hundrað húsum. Og það er ekki gott. Og húsunum fylgir endalaust ónæði af bjöllum... það verður að gera eitthvað í þessum bjöllum...Tröllin geta verið svolítið hræðileg stundum - þó þetta séu meinleysisgrey inni við beinið. Sjáið þessar kynjaskepnur vakna til lífsins í töfrandi og ljóðrænni sýningu,“ segir í tilkynningu á heimasíðunni mak.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir