Danssveit Dósa sótti heimsfrægðina á Rauðasand

Danssveit Dósa í skagfirska keppnisgallanum á Rauðasandi. Frá vinstri:Raggi Sax, Arnar, Alex, Jóhann Daði, Sæþór og Gunnar Hrafn. AÐSEND MYND
Danssveit Dósa í skagfirska keppnisgallanum á Rauðasandi. Frá vinstri:Raggi Sax, Arnar, Alex, Jóhann Daði, Sæþór og Gunnar Hrafn. AÐSEND MYND

Feykir frétti af því fyrir eintóma tilviljun í kaffitíma sínum að hin stuðvæna Danssveit Dósa, sem er skagfirsk hljómsveit eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt, fékk nokkuð óvenjulegt verkefni upp í hendurnar á dögunum. Eða kannski öllu heldur, staðsetning giggsins var óvenjuleg. Hljómsveitarstjórinn, Sæþór Már Hinriksson, gítarleikari og afleysingablaðamaður Feykis, fékk nefnilega upphringingu frá Ástþóri Skúlasyni bónda á Melanesi á Rauðasandi í Barðastrandarsýslu. Hann vantaði hljómsveit til að spila í 50 ára afmælisveislu sinni sem hann vitaskuld vildi halda heima hjá sér. Veislan var um síðustu helgi og það var því ekki annað í stöðunni fyrir Feyki en að forvitnast um ferðalagið hjá starfsmanni sínum.

Danssveit Dósa, sem er þriggja ára gömul, er skipuð Sæþóri, Alex Má Sigurbjörnssyni bassaleikara, Arnari Frey Guðmundssyni harmonikku- og píanóleikara, Eysteini Ívari Guðbrandssyni hljómborðsleikara, Jóhanni Daða Gíslasyni trommuleikara, Gunnari Hrafni Kristjánssyni söngvara, Malen Áskelsdóttur söngkonu og Ragnari Má Jónssyni saxófónleikara. „Eysteinn og Malen voru vant við látin í þetta sinnið og fóru ekki með okkur í þessa svaðilför. Ingi Sigþór Gunnarsson kom með sem hljóðmaður og Jónas Rafn Sigurjónsson einnig sem rótari og almennur skemmtikraftur,“ segir Sæþór léttur og heldur áfram. „Við vorum semsagt að spila í fimmtugsafmæli hjá Ástþóri Skúlasyni sem er ferðaþjónustu- og sauðfjárbóndi á Melanesi á Rauðasandi. Sigga Maja konan hans hafði samband við okkur í janúar og okkur fannst þetta svo spennandi að við sögðum strax já, eða ég var alla vegana strax til í þetta og var fram að giggi alltaf að minnast á þetta við strákana og spyrja hvort þeir væru ekki spenntir fyrir þessu. Var reyndar alla ferðina að spyrja þá hvort þetta væri ekki gaman eins og sést í myndbandinu [sem hægt er að skoða hér að neðan] en ég held að þeir hafi haft gaman af þessu.“

Kröfuharður trommari og brenglað tímaskyn sunnanmanna

Höfðu liðsmenn sveitarinnar áður komið á Rauðasand og hvernig gekk ferðalagið fyrir sig? „Arnar Freyr hélt nú að hann hefði einhvern tíman farið á Rauðasand áður, enda eldri en við flestir í anda og hefur komið á flesta staði í heiminum og er ættaður frá þeim öllum. Við fórum á þremur bílum, tveimur frá Króknum og einum úr Reykjavík. Ég, Alex, Arnar, Ingi og Jónas fórum frá Króknum og Jóhann, Gunnar og Raggi Sax komu að sunnan. Við Króksarar fylltum múrarabílinn hans Arnars af hljóðfærum, hljóðkerfi og vistum og einhverra hluta vegna náði trommarinn að láta okkur taka trommusettið hans með sem tók nær allan krúserinn hans Alex. Ótrúlegir þessir trommarar. Við lögðum af stað frá Sauðárkróki upp úr hádegi og sameiginlegt markmið var að þeir fyrir sunnan myndu gera slíkt hið sama en þegar við vorum mættir á Rauðasand voru þeir að fá sér að borða í Borgarnesi. Tímaskyn þessara manna er afar lélegt og erum við að leita að sérfræðingum til að skoða hvað er að þeim. En veðrið var gott á leiðinni en frekar framúrstefnulegir vegir – það fór um nokkra á bröttustu fjallvegunum.“

Sæþór segir að sveitarmenn hafi ekkert haft með sér annað en hljóðfæri og nærbuxur.Fólkið var svo gestrisið á Rauðasandi að það var byggður sér kofi í tilefni af komu okkar þar sem við sváfum á uppábúnum beddum og áttum ekkert annað skilið – enda ábyggilega ekki í öðrum húsum hæfir.“ Hann segir að auk þess að stilla upp hljóðfærum, hljóðtesta og spila, var hitt og þetta brallað. Göngutúr á Rauðasandi, skoðunarferð um Patreksfjörð og svo var aðeins sötrað á öli enda miklir áhugamenn um svoleiðis.

Hvernig tókst til með spilamennsku og veisluhöld? „Spilamennskan tókst stórvel enda menn orðnir nánir og samstíga sem einn maður eftir ferðalagið. Það voru ábyggilega rúmlega 100 manns í veislunni en við höfðum öðrum hnöppum að hneppa en að telja. Hvað óvænt vandamál varðar, þá var nú margt óvænt í þessari ferð, enda ferðin illa og lítið plönuð af mér, en menn verða að eiga það við sig hvort það hafi verið vandamál.“

Dúddanum deilt með bændum og búaliði í Barðastrandarsýslu

Hvaða lög voru á prógramminu? „Ég held að það taki því nú ekki að telja upp öll lögin hér enda vorum við að vinna með sirka 60 lög í þetta sinnið. En stemningin var gífurleg og náði ábyggilega hápunkti þegar við kynntum Vestfirðinga fyrir þeim ódauðlega smelli sem Dúddírarirey er,“ segir Sæþór en Dúddinn er eina lagið sem finna má með Danssveit Dósa á Spottanum og heyrist reyndar ótt og títt í myndbandinu góða.

Það var árlegt gigg hjá Herramönnum á síðustu öld að halda ball í Trékyllisvík á Ströndum. Má reikna með að DD verði árlega á Rauðasandi? „Við sögðum það nú við Ástþór bónda á Melanesi að við gætum vel hugsað okkur að koma aftur, hann yrði nú 51 árs á næsta ári og þyrfti að halda almennilega upp á það. Það er allavega stemning fyrir því í hópnum að ferðast meira og spila, enda með fádæmum skemmtilegir menn í þessu bandi sem ná flestir vel saman. Framundan hjá sveitinni eru tvö gigg um versló, Unglingalandsmót og Fljótahátíð, síðan liggur leiðin í Húnaver að spila í stórafmæli, svo er mikið ball hjá Rótarýklúbbnum helgina eftir það í Síkinu og svo fara réttarböllinn að taka við og erum við nú þegar bókaðir á ball í Fljótunum í kringum réttirnar. Síðan er hugmyndin að fara að gefa út meira efni ... en við erum reyndar búnir að segja það í þrjú ár!“ Og hananú.

Lesendum til gagns og gamans má bæta því við að Rauðisandur (eða Rauðasandur) er rauður vegna skelja á hörpudiski. Það er fámennt á Rauðasandi en staðurinn dregur engu að síður að sér talsvert af ferðamönnum. Auk magnaðrar náttúru og sandfjörunnar óvenjulega þá er hið rómaða Franska kaffihús á Rauðasandi sem er starfrækt yfir sumarið. Vegurinn á Rauðasand gæti tekið pínu í taugar lofthræddra og vissara að fara varlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir