Ekkert net- og símasamband við Skagaströnd í sex tíma

Fallegur logndagur á Skagaströnd. MYND: ÓAB
Fallegur logndagur á Skagaströnd. MYND: ÓAB

Húnahornið segir frá því að föstudaginn 4. nóvember síðastliðinn voru íbúar, fyrirtæki og stofnanir á Skagaströnd án net- og símasambands í sex klukkustundir þar sem ljósleiðari fór í sundur vegna framkvæmda í Refasveit. Atvikið afhjúpar alvarlega veikleika í öryggisinnviðum í sveitarfélaginu og ef upp hefðu komið tilfelli er varða líf og heilsu íbúa voru engar bjargir til staðar eða möguleiki til að kalla eftir aðstoð þar sem ekki náðist í 112 símleiðis.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarfélagsins frá því á miðvikudag en þar segir að staðan sé enn alvarlegri þar sem enginn sjúkrabíll sé starfræktur í sveitarfélaginu og fyrsta viðbragð sé á hendi ólaunaðra vettvangsliða sem eru meðlimir Björgunarsveitarinnar Strandar.

„Áréttað er að allt síma- og netsamband datt út og því engin leið að hafa samband við aðila nema í gegnum tetrastöðvar sem eru eðli máls samkvæmt ekki til á heimilum. Á hjúkrunarheimili sveitarfélagsins Sæborg datt bjöllukerfið út. Þá eru öll brunavarnarkerfi stofnana háð símasambandi. Það er ósættanlegt með öllu að hluti landsbyggðarinnar búi við mikið óöryggi hvað varðar fjarskipti og bjargir þegar staða sem þessi kemur upp,“ segir í fundargerðinni.

Sveitarstjóra var falið að óska eftir samtali við þar til bæra aðila til þess að ræða stöðuna, sem sé óviðunandi með öllu og ógni búsetuöryggi í landshlutanum.

Heimild: Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir