Sjötugs afmælis-tónleikaveislan byrjuð

Óskar á æfingu fyrir tónleikana.MYND GG
Óskar á æfingu fyrir tónleikana.MYND GG

Miðgarður í Varmahlíð fylltist af fólki í gærkvöldi þegar afmælis-tónleikaveislan hans Óskars Péturssonar hófst. Í viðtalinu hér fyrir neðan sem tekið var fyrir síðasta tölublað Feykis segir Óskar frá því þegar hann ætlaði að halda uppá þrítugs afmælið sitt í Álftagerði en festist í Bakkaselsbrekkunni og var sá eini sem ekki mætti í afmælið, minnstu mátti muna að sagan endurtæki sig þegar Óskar sat fastur á Öxnadalsheiðinni á leiðinni vestur í gær, ásamt hljómsveit og söngkonu, en hlutirnir hafa tilhneygingu til að reddast þegar Óskar er annars vegar og að sjálfsögðu mættu allir, nema Ívar Helgason sem náði sér í flensu og náði ekki að koma. Mikil stemming og gleði var í Miðgarði í gærkvöldi og tónleikarnir frábærir. 

„Æfingar eins og oföndun, maður getur bara dáið“

Jólastjarnan frá Álftagerði, Óskar Pétursson er fæddur 25.desember á því herrans ári 1953 og verður því sjötugur nú um jólin. Af því tilefni hefur verið slegið til sannkallaðrar tónleikaveislu. Blaðamaður mætti á æfingu hjá Óskari í Miðgarði, þegar hann hitt vini sína í Karlakórnum Heimi og varð vitni að því þegar hann þakkaði þeim auðmjúkur fyrir að taka þátt í þessu með sér. „Óskar sagðist líka vera viss um að þeir gerðu sér ekki grein fyrir hveru mikils virði þetta væri honum og sagðist aldrei hafa fundist hann meiri Skagfirðingur heldur en akkúrat núna. Þegar komið hefði til tals að hafa Karlakórinn Heimi með, hefði hann einfaldlega sagt tónleikahöldurunum það að þessi kór væri bestur“. Karlakórinn Heimir skipar sérstakan sess í hjarta Óskars vegna forfeðra, ættingja og vina sem syngja og hafa sungið með kórnum í gegnum tíðina.

Það eru strákarnir í Dægurflugunni, þeir Einar og Smári, sem halda tónleikana með Óskari. Þeir eru honum ekki alveg ókunnugir því þeir hafa áður haldið tónleika með Óskari og þeir héldu líka tónleikaröðina með Álftagerðisbræðrum þegar þeir kvöddu stóra sviðið á sínum tíma.

Þegar blaðamaður spurði Óskar hvernig manni sem tekur minnismiða með sér til læknis til þess að muna hvað sé að honum gangi að skipuleggja svona stóra tónleika var Óskar fljótur að svara: „Illa, aðrir verða að skipuleggja þetta fyrir mig, það hefur komið sér vel að eiga góða að.“ Beinast lá svo við að spyrja hvernig hann væri til heilsunnar, þá var verið að falast eftir því hvort hann væri nokkuð búin að vera með eitthvað af þessum pestum sem hafa verið að hrjá landann, hann sagðist vera „nógu góður, bara með háþrýsting, sykursýki, hjartsláttartruflanir og þvagleka, já og svo þarf ég að fara í axlaraðgerð, það eru slitnar einhverjar sinar í öxlinni á mér“. Þannig að hér er bara um aldurstengda kvilla að ræða, ekki kvef og kverkaskít eins og blaðamaður var að velta fyrir sér.

En aftur að tónleikunum. Eins og áður hefur komið fram verður Óskar ekki einn. Karlakórinn Heimir verður með honum ásamt Guðrúnu Gunnars, Ívari Helgasyni og bræður hans Gísli og Pétur verða þarna líka, svo gætu tónleikagestir átt von á einhverju fleiru sem ekki verður sagt frá hér. Spurður út í prógrammið sagði hann þetta vera glaðleg lög í bland við róleg og blaðamaður verður hissa ef kallinn ætlar ekki aðeins að þenja raddböndin og taka svolítið á því. Hann valdi lögin með kórnum í samráði við Stefán Gíslason, sem flestum ættu að vera kunnur, og síðan var bara flett upp í safninu til að búa til skemmtilegt og fjölbreytt prógramm, enda af nógu að taka eftir langan og fjölbreyttan söngferil. Hljómsveitarstjórn er í höndum góðvinar Óskars, snillingsins Valmar Väljaots.

Atli Gunnar Arnórsson, sem þekktastur er fyrir að vera tengdasonur Gísla í Álftagerði, formaður Karlakórsins Heimis auk þess sem hann er verkfræðingur hjá Stoð ehf. á Sauðárkróki í frístundum sínum, ætlar að halda utan um dagskrána og kynna fyrir Óskar, þó hann hafi nú samt örugglega frá einhverju að segja sjálfur, þannig þekkja hann jú flestir.

Tónleikarnir áttu upphaflega að vera þrennir, einir í Miðgarði, einir í Hofi og einir í Hörpu. Það er ekki alveg staðan í dag, því nú stefnir í eina tónleika í Miðgarði, en þrenna í Hofi og tvenna í Hörpu, svo það er ekki annað hægt að segja en að miðasala hafi gengið vel. Það er eins gott að Heimismenn og aðrir þátttakendur í þessum viðburði hafi ekki verið með mikið af plönum í október.

En hvernig hafa æfingar gengið?

 „Æfingar eru eins og oföndun, maður getur bara dáið,“ sagði Óskar og hló, en bætti því svo við að öllu gríni slepptu, að hann æfði sig mikið í huganum. Síðan getum við hin bara velt því fyrir okkur hvernig æfingar það eru. Af æfingunni með þeim Heimismönnum að dæma sem blaðamaður kíkti á, gengur þetta allt saman eins og smurð vél hjá bifvélavirkjanum Óskari.

Hvað ætlar Óskar svo að gera þegar afmælistónleikaveislan er búin? Tekur þú þér bara frí á aðventunni eða eru jólatónleikar framundan ? „Já ég tek frí, eða ég held nú samt áfram að syngja fyrir lárétta, og lóðrétta. En engir jólatónleikar á dagskránni“. Blaðamaður spyr nú bara að leikslokum þar enda skipulag og mikill fyrirvari ekki einkennandi fyrir Óskar Pétursson.

En hvað á svo að gera á afmælisdaginn sjálfan? Það er leitun að manni sem svarar jafn stutt, hratt og hnitmiðað og Óskar, „Ekki neitt“, síðan bætti hann við „ég ætlaði einu sinni að halda uppá afmælið mitt í Álftagerði þegar ég var þrítugur en festist í Bakkaselsbrekkunni á leiðinni og var sá eini sem ekki mætti í afmælið. Enda hef ég ekkert í Jesús“. Kannski býður hann sér í jólaboð hjá aðstandendum eða hellir sjálfur uppá kaffi, það er svo sem ekki hægt að segja að hann sé ekki að halda „alvöru“ afmælisveislu í tilefni dagsins, vonandi man hann samt eftir því að endurnýja ökuskírteinið sitt fyrir jól, áður en hann verður sjötugur.

Með fyrirfram hamingjuóskum í tilefni sjötíu ára afmælinu og ósk um gott gengi og heilsuhreysti í tónleikaveislunni sem framundan er, er ekki úr vegi að enda á að segja, að ennþá er eitthvað aðeins eftir af miðum, í Hof og Hörpu, þegar þetta er skrifað er ennþá hægt að kaupa einhverja miða á aukatónleika inná  tix.is. Þið sem ekki hafið tryggt ykkur miða nú þegar gerið það, því þessu ætti enginn að missa af, það er algjörlega hlustlaust mat blaðamannsins sem þetta skrifar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir