Eyvör Pálsdóttir heimsótti Úganda með skólanum sínum

Allir mjög spenntir að vera með á myndinni. MYNDIR AÐSENDAR
Allir mjög spenntir að vera með á myndinni. MYNDIR AÐSENDAR

Ansi mörg ungmenni hafa þann háttinn á að loknu námi í framhaldsskóla að sækja sér tilbreytingu og reyna fyrir sér í lýðháskóla áður en teknar eru stórar ákvarðanir um framhaldsnám, störf og stefnu í lífinu. Sumum finnst upplagt að kynnast nýrri menningu, upplifa smá ævintýri og eignast nýja vini, daðra pínu við sjálfið og finna sér kannski einhverja braut fyrir áhugamálin og sjá hvort það leiðir eitthvert. Blaðamaður Feykis rak augun í það á Facebook að Króksarinn Eyvör Pálsdóttir var stödd í Úganda, í miðri Afríku, nú á dögunum ásamt nemendum og kennurum í ISI íþróttalýðháskólanum.

Lýðháskólarnir eru margir og ólíkir. Sumir bjóða upp á mikla fjölbreytni og aðrir meiri sérhæfni eins og íþróttir, tónlist, hönnun, fjölmiðlun, netvinnslu, ljósmyndun, kvikmyndagerð – sumir skólarnir bjóða upp á þetta allt og fleira til. ISI íþróttalýðháskólinn er staðsettur í Ikast í Danmörku, eiginlega í miðju Jótlandi, norður af Billund og vestur af Árósum. Margir skólanna bjóða nemendum upp á spennandi ferðalög en ferð til Úganda er nú sennilega frekar óvanalegt ævintýri fyrir flesta. Feyki lék forvitni á að vita hvernig ferðin gekk fyrir sig og hafði því samband við Eyvöru.

Segðu okkur aðeins frá skólanum sem þú ert í? „Ég er í íþróttalýðháskólanum ISI í Danmörku. Ég er á fótboltalínunni og er því á fótboltaæfingum fjóra daga í viku, svo erum við með tvö íþróttafög og tvö inspiration fög á stundatöflunni auk þess að hafa söngstund og svo tíma þar sem við erum öll saman og tölum um eða gerum mismunandi hluti. Ég er ekki alveg viss hvað við erum mörg í skólanum en ég held að við séum í kringum 70-80 manns. Það er mjög gaman, allir mjög hressir og mjög mikið félagslíf. Á kvöldin hittast yfirleitt allir niðri í litlum sal og horfa á fótboltaleiki eða myndir eða spila spil og bara höfum gaman saman. Mætti alveg skilja meira í dönskunni, ég tala alls enga dönsku.“

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í Danaveldi eða í skólanum? „Já, þau syngja rosalega mikið, við erum með tíma tvo eða þrjá daga í viku sem heita bara samvera og söngur þar sem við stöndum í kringum píanó og syngjum lög úr danskri lýðháskóla söngbók.“

Nú fór hluti nemenda skólans til Úganda á dögunum, hver er hugmyndin með ferðinni? „Já, við fórum um það bil 62 nemendur ásamt fjórum kennurum og fjölskyldum tveggja kennara. Hugmyndin með ferðinni var aðallega að upplifa Afríku, sjá hvernig lífið í Úganda er, hvernig fólkið er og þess háttar. Svo vorum við einnig að heimsækja fótbolta-akademíuna El Cambio Academy en sá sem stofnaði hana er danskur og svo er skólinn minn að styrkja akademíuna þannig að það eru mikil tengsl þar á milli og hefur skólinn minn farið núna þrisvar sinnum út til Úganda.“

Það var alveg rosalega heitt

Geturðu sagt lesendum Feykis aðeins frá ferðalaginu og hvað var gert? „Ferðalagið hófst aðfararnótt 5. mars, þá keyrðum við til Billund, flugum til Amsterdam og þaðan til Entebbe þar sem við gistum eina nótt.“ Entebbe er 90 þúsund manna borg á norðurströnd Viktoríuvatns og má segja að miðbaugurinn liggi nánast í gegnum borgina. Entebbe er u.þ.b. 40 km suður af höfuðborg Úganda, Kampala. „Um morguninn keyrðum við svo til Masaka þar sem við heimsóttum mismunandi skóla þar sem við vorum með planaða leiki fyrir þau og þau með eitthvað planað fyrir okkur sem var oftast þjóðardans Afríku. Krakkarnir voru allir svo spenntir að fá okkur og allir að berjast við það að fá að leiða mann. Svo heimsóttum við El Cambio Academy og fengum að kynnast krökkunum og starfsfólkinu þar. Við heimsóttum einnig bóndabæ sem ræktaði kaffibaunir og þar í kring bjuggu fjölskyldur sem höfðu lítið sem ekkert milli handanna. Við tókum okkur saman og gáfum þeim öllum hveiti, hrísgrjón, baunir og þess háttar og þau buðu okkur að koma inn og sjá húsin sem þau bjuggu í. Svo fórum við líka í tveggja daga safarí í Queen Elizabeth safarí garðinum. Maður sá vel fátæktina alls staðar, lítil og gömul hús og rusl út um allt en samt voru allir svo glaðir og fólk tók rosalega vel á móti okkur og var rosalega spennt að sjá okkur.“

Var heitt í Úganda? „Já, það var alveg rosalega heitt, að minnsta kosti 30°C alla daga en svo fengum við einn rigningardag.“

Nú mátti sjá á Facebook að þú kallaðir eftir hjálp til að styrkja nemendur í El Cambio akademíunni svo þeir gætu heimsótt skólann í Danmörku. Hvernig gekk það? „Það gekk mjög vel, betur en við áttum von á. Stefnan hjá akademíunni var að safna 30.000 dönskum krónum og þegar helmingurinn af okkur var búinn að pósta þá voru strax komnar 22.000 danskar inn á reikninginn hjá þeim og samt átti meira en helmingur hópsins eftir að pósta eða leggja peninginn inn. Þannig að það gekk mjög vel. Ég sjálf safnaði í kringum 6000 dönskum – takk kærlega allir sem hjálpuðu mér með það!“

Gerðist eitthvað eftirminnilegt eða skemmtilegt í ferðinni sem þú gætir sagt okkur frá? „Það var rosalega margt, en í einum skólanum sem við heimsóttum voru þau búin að dansa og syngja, svo sungu þau þjóðsönginn sinn fyrir okkur og báðu okkur svo að syngja danska þjóðsönginn, það endaði á því að einn af kennurunum sem talar litla sem enga ensku þurfti að fara upp á svið og syngja danska þjóðsönginn í míkrafón fyrir framan að minnsta kosti 150 manns.

Svo er líka önnur fyndin saga en daginn sem við vorum að fara að fljúga heim þá ætluðum við að fara í moll í Entebbe og borða þar. Þegar við erum í röð til þess að fara í security check þá heyri ég eitthvert fólk tala íslensku og ákveð að spyrja bara svona í gríni hvaðan þau séu og svo enda ég bara á rosalegu spjalli við þessa þrjá Íslendinga sem ég hef aldrei séð áður sem voru á leiðinni í sama moll.“

Hvað á svo að gera í sumar Eyvör? „Ég ætla að spila fótbolta með Tindastóli, vinna og svo eyða tíma með fjölskyldunni áður en ég fer til Bandaríkjanna í háskóla í lok júlí,“ segir Eyvör að lokum en þess má geta að hún er yngsta dóttir Guðnýjar Axels og Palla Friðriks, ritstjóra Feykis.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ISI skólanum í Danmörku og ferð skólans til Úganda. Einnig er hér hlekkur á smá vídeó frá ferðinni >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir