Fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera

Kristrún María og Sigurður Bjarni, fyrirliði Kormáks/Hvatar, hress og kát á Stamford Bridge áður en leikur Chelsea og Fulham hófst í gærkvöldi. AÐSEND MYND
Kristrún María og Sigurður Bjarni, fyrirliði Kormáks/Hvatar, hress og kát á Stamford Bridge áður en leikur Chelsea og Fulham hófst í gærkvöldi. AÐSEND MYND

Lið Tindastóls, sem spilar í Bestu deild kvenna í sumar, varð fyrir áfalli á dögunum þegar varnarmaskínan Kristrún María Magnúsdóttir varð fyrir slæmum meiðslum sem gætu mögulega sett hana á hliðarlínuna í eitt og hálft ár. Hún er reyndar ákveðin í að stytta þann biðtíma eitthvað. Kristrún er leikmaður sem fer ekki mikið fyrir á vellinum en vinnur sína vinnu möglunarlaust og hefur vart stigið feilspor við hlið Bryndísar fyrirliða í vörninni síðustu tvö sumur.

Hún á að baki 148 leiki með Stólastúlkum en Kristrún er 23 ára gömul, dóttir Sigrúnar Fossberg Arnardóttur og Magnúsar Jóhannessonar frá Brekkukoti og því heimastúlka. Kristrún hefur aðeins misst úr einn leik síðustu tvö tímabil þannig að það stefnir í óvenjulegt sumar hjá henni.

Hún varð fyrir meiðslunum í leik gegn Þór/KA á Kjarnafæðismótinu í janúar. Feykir sendi nokkrar spurningar á Kristrúnu í gær en þá var hún stödd á Stamford Bridge í London – í stúkunni.

Hvernig gerðist þetta og grunaði þig strax að þetta væru alvarleg meiðsli? „Þór/KA var með hápressu á okkur og ég fæ boltann frá Möggu í markinu og ætla að fara framhjá sóknarmanninum í Þór/KA þegar hún hleypur á mig og ég lendi illa á hægri fætinum. Ég var nýbúin að vera á æfingu hjá Fram fyrir sunnan þar sem ein sleit krossbandið svo það var alveg ofarlega í huga en samt, á sama tíma, var ég í afneitun og reyndi að sannfæra mig og aðra um að þetta hafi bara verið högg. En þegar adrenalinið var orðið minna þá fann ég að einhvað var ekki eins og það átti að vera. En ég bjóst ekki við að vera komin með meira en 50% liðbandaskaða en niðurstöðurnar voru slit á fremra krossbandi og hliðarliðbandið innanvert á hnéinu, einnig skaði á aftara krossbandi.“ 


Hvað tekur nú við? „Það sem tekur við núna er að vera í spelku dag og nótt næstu sex vikurnar ásamt því að byrja í sjúkraþjálfun í von um að hliðarbandið styrkist fyrir aðgerð sem er sett 16. mars og síðan endurhæfing eftir aðgerð. Markmiðið er klárlega að koma ennþá sterkari og sem fyrst til baka. Læknirinn talaði um að þetta gæti verið eitt og hálft ár en ég ætla að leyfa mér að vona að það verði fyrr.“


Velgengni Stólastúlkna ekki komið Kristrúnu á óvart

Þú hefur verið að spila frábærlega í vörninni síðustu sumur og það eru væntanlega mikil vonbrigði að missa nú af sumrinu í Bestu deildinni. Hvernig mundir þú lýsa þessum síðustu 2-3 sumrum með liði Tindastóls og hvaða andstæðingur hefur verið erfiðastur? „Það er búið að vera ótrúlega gaman að vera partur af því að vaxa og þroskast með Tindastólstliðinu síðustu ár. Efsta deildin var markmið sem maður stefndi alltaf að síðan maður byrjaði í fótbolta og [sumarið í Pepsi Max deildinni] var klárlega eitt af mínum uppáhalds fótboltasumrum. Ég hef alltaf verið mikill Valsari, og margar sem maður hefur litið upp til í fótboltanum koma þaðan, svo það var eintaklega skemmtilegt að spila á Hlíðarenda og auðvitað fá þær til okkar. Ásdís Karen í Val var erfið að eiga við í þeim leikjum!“


Hefur velgengni liðsins komið þér á óvart og hverju þakkar þú árangurinn sem náðst hefur? „Velgengnin hefur í raun ekki komið mér á óvart. Þegar ég horfi til baka þegar ég var að taka mín fyrstu skref í meistaraflokki man ég hvað „stóru“ leikirnir voru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Við erum svo frábær liðsheild, allar með sameiginlegt markmið og allar með sitt markmið sem segir manni að metnaðurinn fyrir því að leggja sig fram er til staðar. Ásamt því að okkur finnst þetta öllum svo ótrúlega skemmtilegt og tilbúnar til að hjálpa hvor annarri bæði utan vallar sem innan. Metnaðurinn í okkur stelpunum ásamt öllu fólkinu sem heldur utan um liðið er svo mikill og ekki má gleyma stuðningsmönnunum sem eru frábærir og allt er þetta stór partur af því að ná svona langt.“ 


Heldurðu að Bryndís plumi sig á vellinum án þín? „Bryndís er svo geggjuð að ég veit að hún á eftir að standa sig vel í sumar! En ég veit að ég á eftir að sakna þess að standa hjá henni inn á vellinum,“ segir Kristrún að lokum.

Hún mun koma ennþá sterkari til baka

„Það er risastórt högg fyrir liðið að Kristrún María hafi meiðst,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann um mikilvægi Kristrúnar. „Kristrún er mjög mikill leiðtogi í okkar liði og hefur verið í mörg ár. Hún er grjótharður varnarmaður, góð með boltann og virkilega skynsöm í sínum leik. Auk þess að vera frábær í klefanum og mikil fyrirmynd fyrir alla.

Við munum sakna hennar mikið en við vitum jafnframt að hún muni koma ennþá sterkari til baka eftir þetta högg og við bíðum spennt eftir því að sjá hana aftur i Tindastóls-treyjunni sem allra fyrst.

Núna er það svo hinna leikmannana að sjá til þess að Kristrún geti spilað í efstu deild á næstu ári,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir