Feðgin úr Fljótunum snillingar í hrútaþukli

Feðginin Fanney og Gunnar. MYND AÐSEND
Feðginin Fanney og Gunnar. MYND AÐSEND

Íslandsmótið í hrútaþukli var haldið á sauðfjársetrinu á Ströndum nú á dögunum. Það vakti athygli að feðginin Fanney Gunnarsdóttir og Gunnar Steingrímsson frá Stóra-Holti í Fljótum voru bæði á verðlaunapalli í keppninni.

Fanney Gunnarsdóttir er fædd á því herrans ári 1993 og er dóttir hjónanna Gunnars Steingrímssonar og Bergþóru Pétursdóttir og alin upp á Stóra-Holti í Fljótum. Hún er móðir tveggja barna, starfandi snyrtifræðingur og nuddari en er líka að leggja lokahönd á nám í líftækni við Háskólann á Akureyri, svo það er óhætt að segja að Fanney hafi í mörg horn að líta. Gunnar pabbi hennar brá búi fyrir tveimur árum en eins og maðurinn sagði; einu sinni sauðfjárbóndi, alltaf sauðfjárbóndi.

Gunnar var sitjandi Íslandsmeistari í hrútaþukli og skrapp vestur til að skila inn verðlaununum og gera tilraun til að verja titilinn en hafnaði í öðru sæti í flokki vanra og lét í lægra haldi fyrir Jóni Stefánssyni frá Broddnesi. Upphafleg ástæða Fanneyjar fyrir ferðinni var að veita pabba sínum félagsskap og vera ökuþór en þegar á staðinn var komið ákvað hún að taka þátt í flokki óvanra, bara svona „uppá grínið“ En öllu gríni fylgir einhver alvara og gerði Fanney sér lítið fyrir og sigraði flokk óvanra. Fanney segir að það sem hún kunni um hvað þyki gott og flott í sauðfjárrækt hafi hún lært af pabba sínum.

En hvernig fer svona keppni fram? „Í keppninni er notast við 4 hrúta sem stigaðir hafa verið af ráðunautum. Keppnin fer svo þannig fram að hver keppandi fær sinn tíma til að skoða hrútana í bak og fyrir. Keppandinn skráir svo hrútana í gæðaröð ásamt því að rökstyðja hvers vegna eftirfarandi hrútur fékk það sæti. Í flokki óvanra nægir að koma með stuttann texta til rökstuðnings en þeir vönu nota hið hefðbundna stigakerfi sem þekkist í hrútadómum. Til þess svo að sigra þarf maður að reyna að komast sem næst dómum ráðunautana.“

Fanney hefur aldrei lagt í að taka þátt í keppni í hrútaþukli og því liggur beinast við að spyrja hana af hverju tekur maður þátt í hrútaþukli.„ Já, það er góð spurning. Ætli það sé ekki fyrst og fremst bara til að hafa gaman.“

Feykir óskar þeim feðginum að sjálfsögðu innilega til hamingju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir