Frábærir danskennarar í nýjum dansskóla

Nýju danskennararnir. MYND MENNINGARFÉLAG HÚNAÞINGS VESTRA
Nýju danskennararnir. MYND MENNINGARFÉLAG HÚNAÞINGS VESTRA

Menningarfélag Húnaþings vestra er metnaðarfullt félag og fær margar flottar og skemmtilegar hugmyndir. Dansskóli er nýjasta hugmyndin sem orðið hefur að veruleika. Feykir heyrði í Sigurði Líndal formanni Menningarfélagsins og spurði hann aðeins út í tilurð dansskólans.

„Við erum þrjú í Menningarfélaginu hérna og það er alltaf verið að reyna að koma með hugmyndir hvað hægt sé að gera og hvað vanti,“ segir Sigurður þegar Feykir spyr hvernig hugmyndin um dansskóla hafi komið til. „Við vinnum náið með Stúdío Handbendi sem er með kjörið húsnæði fyrir danskennslu. Svo er það bara þannig með allt, maður verður stundum að gera hlutina í staðinn fyrir að vera að svekkja sig á því að eitthvað sé ekki hægt af því maður býr í litlum bæ út á landi,“ heldur Sigurður áfram.

Á mánudögum í vetur verður boðið upp á danskennslu fyrir alla aldurshópa, street, hip hop, jazz og söngleikjadans. Það eru engar smá kanónur sem sjá um kennsluna en um er að ræða Chantelle Carey og Ola Getka. Chantelle er margverðlaunaður alþjóðlegur danshöfundur fyrir svið og skjá. Á Íslandi hefur hún unnið Grímuna í tvígang og leitt lið Íslands til fjölda verðlauna í alþjóðlegum danskeppnum. Hún er ekki ókunnug Hvammstanga en hún samdi og kenndi dansana fyrir uppsetningu Leikflokks Húnaþings vestra á Himin og jörð síðustu páska. Ola er margfaldur meistari í götueinvígum bæði hérlendis og erlendis. Hún er reyndur og fjölhæfur kennari og hefur meðal annars kennt í Listaháskóla Íslands og Dansskóla Brynju Péturs.

Þá liggur beinast við að spyrja hvernig þeim hafi tekist að næla í svona frábæra kennara og það stendur ekki á svari: „Það er svolítið svoleiðis í þessum bransa að maður þekkir mann og þær voru báðar lausar á mánudögum og því kennum við bara á mánudögum. Þær ætla svo bara að skiptast á að koma.“

Sigurður bendir einnig á að þó Dansskólinn sé staðsettur á Hvammstanga hvetji hann alla sem hafa áhuga á að koma og læra dans, að skrá sig og vera með. Fjarlægðin milli staða sé ekkert eins mikil og fólki virðist oft finnast. Hann hvetur því alla sem hafa vilja og getu til að taka rúnt á mánudögum að skrá sig og vera með. „Ég fór til dæmis með dóttur mína, þegar hún var á leikskólaaldri, á Sauðárkrók á laugardagsmorgnum í Tónadans svo hún gæti lært að dansa,“ segir Sigurður.

Hann nefnir í lokin að hann vonist eftir góðri skráningu svo hægt verði að halda áfram með Dansskólann eftir áramót. Allar nánari upplýsingar um Dansskólann má finna á Facebooksíðu Menningarfélags Húnaþings vestra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir