Hólahátíð verður helgina 16.-17. ágúst 2025
Hin árlega Hólahátíð verður um næstu helgi en nú er bryddað upp á þeirri nýbreytni að hátíðin hefst á laugardeginum með Hólahátíð barnanna. Þar verður dagskrá fyrir börn og fjölskyldur frá kl. 14.00. Skátafélagið Eilífsbúar sér um dagskrána og verður farið í ýmsa leiki og þrautir úti, auk skógargöngu.
Kl. 16.00 verður söngstund í Hóladómkirkju í umsjá Gunnars Rögnvaldssonar og Hólabiskups.
Kl. 16.30 verða svo grillaðar pylsur við Auðunarstofu.
Hátíðarmessa verður í Hóladómkirkju sunnudaginn 17. ágúst kl. 14.00.
Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédikar. Sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sr. Sigríður Gunnarsdóttir prófastur, sr. Jón A. Baldvinsson fyrrum vígslubiskup og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrrum vígslubiskup þjóna fyrir altari. Skagfirski kammerkórinn og Kirkjukór Hóladómkirkju syngja. Organistar eru Jóhann Bjarnason og Valmar Väljots. Einnig syngja Óskar Pétursson og Ívar Helgason í messunni. Stjórnandi Kammerkórsins er Elena Zharinova.
Eftir messu er öllum boðið í veislukaffi í umsjá Austan Vatna. Hátíðarsamkoma hefst svo í Hóladómkirkju kl.16.00 þar sem forseti Íslands frú Halla Tómasdóttir flytur hátíðarræðuna. Söngatriði flytja Óskar Pétursson og Ívar Helgason við undirleik Valmars Väljots og Hofsóss stúlkurnar, Valgerður Rakel Rúnarsdóttir og Dagmar Helga Helgadóttir syngja við undirleik Ragnars Þórs Jónssonar.
Feykir hvetur alla til að mæta heim að Hólum og njóta Hólahátíðar um helgina./hmj