Kvöldstund með kátum (h)eldri borgurum

Það blés hressilega á leið minni austur yfir Héraðsvötnin þegar ég lagði leið mína á frumsýningu Leikfélags Hofsóss á nýjustu uppfærslu sinni, Maður í mislitum sokkum, síðastliðið föstudagskvöld [24. mars – innskot PF]. En það var bara forsmekkurinn að því sem koma skyldi meðan fylgst var með hinni settlegu ekkju Steindóru og nágrönnum hennar og óvæntum gesti á sviðinu í Höfðaborg. Fyrsta atriðið á sviðinu benti til þess að hér væri að ferðinni dæmigerður hurðafarsi en svo reyndist ekki vera. Vissulega gamanleikur en á nokkrum öðrum nótum og ekki síðri skemmtun.

Hofsósingar láta sér fátt fyrir brjósti brenna þegar kemur að leiklist og hafa á að skipa frábærum leikurum sem hafa kitlað hláturtaugarnar fyrr og gerðu það ekki síður nú. Nægir þar að nefna Veigu á Hóli og Sigmund í Brekkukoti sem bæði hafa einstakt lag á að leika með öllu andlitinu og sýna skemmtilegt látbragð. Veiga fór frábærlega með hlutverk hinnar vergjörnu Lilju. Í þessari sýningu fannst manni Sigmundur reyndar leika mest með augunum en það var ekki síður fyndið. Og nú hafði hann líka tekið Sæunni systur sína með sér á sviðið. Fer hún skemmtilega með hlutverk hinnar eldhressu og ólíkindalegu Fríðu og túlkar hana af mikilli leikgleði. Annar reynslubolti er Kristján á Óslandi sem mér fannst skemmtilega fúll sem Bjarni eiginmaður Fríðu, Bjarna, sem vill fá sína kjötsúpu undanbragðalaust.

Leikfélaginu hefur gjarnan borist liðsauki úr Hjaltadal, að minnsta kosti hin seinni ár, og nú er það Guðmundur Guðmundsson sem er í eftirminnilegu hlutverki Dóra. Var að heyra sem sá karakter hefði einstakan áhuga á krónískum sjúkdómum en vildi þó vera karl í krapinu þegar á reyndi. Guðmundur er afar sannfærandi, túlkar persónuna áreynslulaust og kemur afbökuðum orðatiltækjunum skemmtilega til skila. Þá er ótalin Fríða Eyjólfsdóttir sem fór með annað aðalhlutverkanna, Steindóru. Hún er á sviðinu allan tímann og klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Fríða hefur áður leikið krúttlegar gamlar konur á trúverðugan hátt. Hún er skýrmælt og örugg og kemur sínum texta alltaf vel til skila. Raunar eiga þessir eldri karakterar það sameiginlegt að mega ekki vamm sitt vita en vera þó alls ekki dauðir úr öllum æðum. Undir lokin stíga svo á svið tvær ungar konur, Rakel og Sunna Dís, sem báðar eiga reyndar mæður á sviðinu. Þær kippa greinilega í kynið og skiluðu hinum fordekruðu systrum með sóma. Það er raunar skemmtilegt við sýninguna hvað allir karakterarnir bjóða upp á skemmtilega túlkun og því eru það ekki einhver einn eða tveir sem eiga sviðið eins og oft vill verða.

Umgjörðin skiptir auðvitað máli og um leið og maður gengur inn í salinn og sest við borð í kaffihúsastemningu er maður strax kominn til ömmu eða vinalegrar frænku. Dýptin á sviðinu í Höfðaborg býður upp á möguleika sem ekki öll félagsheimili hafa og fannst mér skemmtilegt hvernig hún var nýtt í sviðsmyndinni. Búningarnir voru líka skemmtilegir og studdu við persónurnar. Þá finnst mér skemmtilegt hvernig leikstjórinn fléttar inn í sýninguna tónlist og danshreyfingum sem lífga mikið upp á, ekki síst óvenjuleg útfærsla með ljósum í einu atriðinna. Kæmi mér ekki á óvart þó þessi atriði hafi reynt nokkuð á þægindaramma einhverra leikara en það er alltaf gott að stíga út fyrir hann. Þröstur er enda afar reyndur og þekkir leikhópinn frá fyrri uppfærslum og kann þá list að ná því besta fram hjá hverjum og einum. Það tekst svo sannarlega þarna.

Og þó að sýningin sé gamanleikur skilur hún mann samt eftir með vangaveltur um lífið og tilveruna, kannski af því maður þekkir einhverjar samsvaranir í þessum grátbroslegu persónum sem þarna kljást við dálitla uppákomu sem setur þeirra daglega og fábrotna líf úr skorðum. Ég mæli svo sannarlega með kvöldstund í Höfðaborg, það er að vanda vel þess virði að verja kvöldinu með Leikfélagi Hofsóss.

@Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Áður birst í 13. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir