Líf atvinnumanns í fótbolta er bæði skrítið og mikið ævintýri

Melissa Garcia. MYND: DAVÍÐ MÁR
Melissa Garcia. MYND: DAVÍÐ MÁR

Nú í leikmannaglugganum í júlí var ákveðið að styrkja lið Stólastúlkna fyrir lokaátökin í Lengjudeildinni. Rakel Sjöfn Stefánsson kom frá liði Hamranna á Akureyri en hún hafði spilað með liði Tindastóls sumarið 2020 og tvær stúlkur komu alla leið frá Ástralíu; hin 18 ára ástralska/maltneska Claudia Jamie Valetta og hin þrítuga Melissa Alison Garcia. Hún er bandarísk að uppruna, frá San Diego í Kaliforníu, en er einnig með lúxemborgskt vegabréf. Hún spilar ýmist á miðjunni eða frammi og er kraftmikill reynslubolti en hún er þegar búin að skora tvö mörk í fimm leikjum með Stólastúlkum.

„Þetta er í annað sinn sem ég spila á Íslandi. Ég var með liði Hauka árið 2020 en sleit þá krossbönd svo tímabilið hjá mér var stutt,“ segir Melissa en hún náði aðeins fjórum leikjum með Hafnfirðingum. Hún fékk veður af áhuga Tindastóls á henni í gegnum umboðsmann sinn. „Eftir að hafa talað við Donna og nokkrar af stelpunum ákvað ég að slá til og koma aftur til Íslands til að hjálpa liðinu að komast upp,“ segir hún en Melissa var að spila í Melbourne í Ástralíu fyrir Preston Lions þar sem hún var leikmaður, styrktarþjálfari og fótboltaþjálfari.

Hvað hefur komið þér mest á óvart á Íslandi? „Hversu lengi það helst bjart yfir sumarið – það er kúl!“

Hvernig er að vera hluti af liði Tindastóls? „Satt best að segja tel ég mig heppna vegna þess að þetta er eitt besta liðsumhverfi sem ég hef komið inn í. Á þessum stutta tíma sem ég hef verið hér hefur verið auðvelt að aðlagast liðinu. Ég hef mjög gaman af æfingunum, ákefðinni í kringum æfingar og leiki og hvernig allir eru að berjast fyrir sama markmiði. Ég held að þessi síðasti leikur gegn FHL [20. ágúst sl.] hafi í raun sýnt andlegan styrk liðsins og hvers vegna við erum lið þurfa að óttast í síðustu þremur umferðum tímabilsins,“ segir Melissa en hún svaraði spurningum Feykis 25. ágúst sl. áður en Stólastúlkur lögðu lið Fjölnis 5-0 síðar um kvöldið.

Hvað finnst þér um fótboltann á Íslandi? „Íþróttin er risastór hér og magnað hvað allir eru innvinklaðir í klúbbinn. Leikstíllinn er aðeins öðruvísi en ég er vön en það hefur verið auðvelt að aðlagst. Ég held að aðalmunurinn hér á Íslandi og í öðrum deildum sem ég hef spilað í sé hversu hjálpleg félögin eru og hversu vel þau sjá um leikmenn sína.“

Þið Claudia komuð samtímis frá Ástralíu til Íslands. Er auðvelt að eignast vini í fótboltanum? „Já, ég og Claudia komum báðar frá Ástralíu en við þekktumst ekki áður. Hún er frá Sydney og ég var í Melbourne en við eigum nokkra sameiginlega vini. Það bæði er og er ekki auðvelt að eignast vini í fótbolta. Ég er frekar feimin og vandræðaleg þegar ég er að kynnast fólki en þetta fer mjög eftir kúltúrnum innan liðsins sem þú ert að koma inn í. Ég hef eignast frábæra vini á ferlinum og það hefur verið auðvelt að eignast vini hér vegna þess hversu nánir leikmenn Tindastóls eru.“

Hvað er það besta við að vera fótboltamaður? „Ég held að það besta við að vera fótboltamaður sé að geta keppt og tjáð sig á vellinum. Það sem mér finnst mest heillandi við fótboltann er að sjá þjálfun þína, sköpunargáfu, vinnu, dugnað og bókstaflega blóð, svita og tár renna saman í eitt á leikdegi. Það er eitthvað sérstakt og einstakt við ellefu einstaklinga sem allir vinna að sameiginlegu markmiði.“

Er líf atvinnuknattspyrnumannsins skrítið eða er það bara eitt stórt ævintýri? „Mér finnst líf atvinnumanns í fótbolta vera bæði skrítið og mikið ævintýri. Þetta er besta starf í heimi en það er allt öðruvísi en dæmigerður atvinnuferill. Enginn í fjölskyldunni minni stundar íþróttir svo það hefur verið erfitt fyrir þá að skilja og fá stuðning frá þeim stundum. Ég hef spilað í sjö mismunandi löndum, mismunandi deildum, og á síðasta og einu og hálfu ári unnið þrjá meistaratitla og gengið í gegnum miklar hæðir og lægðir í leiðinni. Ég er komin til baka eftir tvær skurðaðgerðir á krossböndum sem hafa virkilega mótað mig og styrkt hver ég er sem leikmaður, því að koma aftur hefur verið það erfiðasta sem ég hef gert. Eini gallinn við að vera kvenkyns atvinnumaður í fótbolta er munurinn á launum, fjármagni og meðferð karla og kvenna. Sem leikmaður og þjálfari er mikilvægt fyrir mig að vera öðrum fyrirmynd og veita næstu kynslóð bestu meðferð og þjálfun og ég get. Til að draga þetta saman; fótboltaferillinn hefur sannarlega verið ævintýri og ég hef lært helling um heiminn og sjálfa mig í leiðinni. Þetta hefur alls ekki verið auðvelt en ég sé ekki eftir neinu því þetta hefur gert mér kleift að stunda íþróttina sem ég elska, upplifa nýja menningu og fólk, þjálfa erlendis og ferðast.“

Hvaða samherji er skemmtilegastur í búningsklefanum? „Bryndis, bókstaflega bara með því að vera hún sjálf. Hún er eins og gleðisprengja í hvaða herbergi sem hún kemur inn í.“

Hvaða vonir bast þú við tíma þinn hér á Íslandi? „Ég vil meira en allt vinna deildina og taka þátt í að koma liði Tindastóls upp. Ég er gáttuð á hversu langt félagið hefur náð á undanförnum fimm árum. Ég tel að þetta lið sé verulega sérstakt og það eigi eftir að gera góða hluti. Ég geri allt sem ég get til að svo megi verða.“

Hvaða fótboltamenn hafa verið þér fyrirmynd? „Uppáhalds fótboltamenn mínir eru Mia Hamm og Ronaldo. Síðan ég var krakki hef ég verið með Mia Hamm plakat á hurðinni minni. Hún hefur veitt svo mörgum stelpum innblástur að það er ótrúlegt. Ronaldo hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan hann var hjá Manchester United. Ég elska hversu mikla vinnu hann leggur á sig innan vallar sem utan. Eitt af því sem mér finnst magnaðast við hann er að ef hann klúðrar marktækifæri þá veistu að hann á eftir að skora úr því næsta. Þessi ákveðni og samkeppnishæfni er eitthvað sem ég reyni að innleiða í minn eigin leik.“

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér á Króknum svona fyrir utan fótboltann? „Dæmigerður dagur hjá mér hefst með skóli eða lyftingum fyrir vinnu. Ég vinn á Lemon á Sauðárkróki frá kl. 11-15. Síðan er æfing frá kl. 5-6:45 og síðan er farið í laugina í kalda/heita pottinn. Það er svo misjafnt eftir kvöldinu hvort ég er heima hjá hinum Bandaríkjamönnunym eða slaka á heima.“

Hvað hefur verið erfiðast við veru þína hér á Íslandi? „Það erfiðasta við dvöl mína á Íslandi er tímamismunurinn, að finna tíma til að tala við kærastann minn og vini og fjölskyldu heima. Pabbi greindist með krabbamein fyrr á þessu ári áður en ég fór til Ástralíu, svo það hefur verið frekar erfitt að vera í burtu,“ segir Melissa. Þegar hún var spurð í lokin hvað væri það sniðugasta sem hefði hent hana á Íslandi þá sagði hún frá því að sumarið sem hún var með Haukum hefði vinkona hennar lent í því að rolla réðst að henni (eða elti) þegar þær voru á ferð um Gullna þríhyrninginn. Svona eru ævintýrin í lífi atvinnumanns í knattspyrnu á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir