Listamiðstöðin Nes og Vesturfarasetrið tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Nes - listamiðstöð. Úr myndasafni.
Nes - listamiðstöð. Úr myndasafni.

Tvö menningarverkefni á Norðurlandi-vestra hafa verið valin úr hópi 37 umsækjenda á lista Eyrarrósarinnar 2017 og eiga því möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár.  Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan landsbyggðarinnar og er markmið hennar að beina athygli að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. 

Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem standa að verðlaununum en verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú, og mun hún afhenda verðlaunin þann 16. febrúar n.k.

Nes – listamiðstöð á Skagaströnd hefur starfað frá árinu 2008 en þar býðst listamönnum hvaðanæva að úr heiminum að dvelja og vinna að verkefnum sínum og hafa fjölmargir listamenn nýtt sér aðstöðuna.  Einnig eru mánaðarlegir viðburðir með þátttöku heimamanna í listamiðstöðinni þar sem gestir fá tækifæri til að kynnast margs konar listsköpun.

Vesturfarasetrið á Hofsósi var opnað árið 1996 með það að markmiði að segja sögu fólksins sem flutti vestur um haf á árunum 1850-1914 og efla tengsl afkomenda þeirra við frændfólk á Íslandi. Í Vesturfarasetrinu hafa verið settar upp fjölmargar sýningar sem miða að því að varpa ljósi á söguna og minnast fólksins sem flutti til Vesturheims í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. í von um betra líf.

Eyrarrósin verður nú afhent í þrettánda sinn. Verðlaunin eru tvær milljónir króna en tvö önnur verkefni á listanum hljóta 500 þúsund krónur hvort.

Heimild: byggdastofnun.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir