Minnisplattar til minningar um vesturfarana

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar veitti skiltinu viðtöku fyrir hönd sveitarfélagsins. Með honum á myndinni eru frá vinstri: Cathy Josephson (formaður Vesturfaramiðstöðvar Austurlands á Vopnafirði og Icelandic Roots teymisins á Íslandi), Sunna Furstenau (formaður Icelandic Roots) og Þórdís Edda Guðjónsdóttir (ættuð frá Borðeyri og  sjálfboðaliði í Icelandic Roots). MYND AF SÍÐU HÚNAÞINGS VESTRA
Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar veitti skiltinu viðtöku fyrir hönd sveitarfélagsins. Með honum á myndinni eru frá vinstri: Cathy Josephson (formaður Vesturfaramiðstöðvar Austurlands á Vopnafirði og Icelandic Roots teymisins á Íslandi), Sunna Furstenau (formaður Icelandic Roots) og Þórdís Edda Guðjónsdóttir (ættuð frá Borðeyri og sjálfboðaliði í Icelandic Roots). MYND AF SÍÐU HÚNAÞINGS VESTRA

Fulltrúar frá Icelandic Roots samtökunum voru á ferð um Norðurland vestra í síðustu viku og afhentu minnisplatta bæði á Borðeyri og á Sauðárkróki til minningar um forfeður sína sem fóru vestur um haf í kringum aldamótin 1900. Sjálfboðaliðar Icelandic Roots, sem koma frá Norður-Ameríku, ferðast nú um Ísland til að fagna tíu ára afmæli samtakanna. Þeir heimsækja mikilvæga sögustaði, hitta félaga sem búsettir eru á Íslandi og setja upp minnisvarða um vesturfarana.

Athöfnin á Sauðárkróki fór fram sl. föstudag og á síðu Skagafjarðar segir: „Minnisplattinn stendur á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók á góðu útsýnissvæði sunnan við kirkjugarðinn. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, afhjúpaði minnisplattann og þakkaði samtökunum fyrir rausnarlega gjöf. Í kjölfar athafnarinnar buðu meðlimir Pilsaþyts gestum í íslenskt kaffiboð í Safnaðarheimilinu.“

Einnig heimsóttu fulltrúar Icelandic Roots Borðeyri við Hrútafjörð þar sem minnisplatti var einnig af-hjúpaður og við það tækifæri voru trjáplöntur gróð-ursettar. „Gjafirnar voru afhentar við hátíðlega athöfn á Borðeyri og var viðstöddum í kjölfarið boðið til kaffis í Riis húsi,“ segir í frétt á vef Húnaþings vestra.

Icelandic Roots samtökin voru stofnuð árið 2013 en samtökin halda meðal annars utan um gagnagrunn Vestur-Íslendinga www.icelandic-roots.com. Myndirnar sem hér fylgja eru af heimasíðum Húnaþings vestra og Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir