Níutíu skagfirskir kylfingar fóru örugglega á kostum í Borgarnesi

Fríður hópur sveiflukónga og -drottninga á Hamarsvelli í Borgarnesi. MYND: BJB
Fríður hópur sveiflukónga og -drottninga á Hamarsvelli í Borgarnesi. MYND: BJB

Það voru örugglega ekki slegin mörg vindhögg í Borgarnesi um liðna helgi þegar skagfirska sveiflan var tekin til kostanna á Skagfirðingamóti – golfmóti burtfluttra Skagfirðinga, sem þar fór fram á Hamarsvellinum góðal. Níutíu keppendur nutu sín í sól og blíðu en auk þeirra fékk á annan tug innfluttra danskra golfara að taka þátt í þessu eðalmóti.

Að mótinu loknu tók Sólrún Steindórsdóttir, ekkja Gunna bakara, við gjöf frá keppendum síðustu 24 ára í minningu hans. Gunni var einn helsti forsprakki mótsins í áraraðir ásamt Sólrúnu. Gjöfin var mynd af Gunna sem Sjöfn Sigfúsdóttir málaði sem sýnir hann í sínu besta ljósi á golfvellinum – að pútta með einni hendi. Steinull styrkti þessa ágætu gjöf sérstaklega og er henni og öllum öðrum fyrirtækjum og einstaklingum þakkaður góður stuðningur við Skagfirðingamótið.

Sonur Gunna og Sólrúnar, Guðjón Baldur, fór Hamarsvöllinn i fæstum höggum, eða 77, og fékk fyrir það Gunnabikarinn sem fjölskyldan gaf í fyrra. Sigurvegarar í punktakeppni voru Ragnar Már Magnússon i karlaflokki og Hafdís Hrönn Björnsdóttir i kvennaflokki. Ragnar er sonur Magga Sverris og Ástu á sýsluskrifstofunni og Hafdís barnabarn Ívars pósts.

Danirnir sem mættu á mótið voru tólf talsins og þeim fylgdi fararstjóri þeirra og golfkennari, Óli Barðdal. Samkvæmt öruggum heimildum Feykis þá spiluð Danirniar sem gestir en voru leystir út með minjagrip, verðlaunapeningi merktum mótinu og létu mjög vel af sér.

Í kynningu á Facebooks-síðu mótsins segir að árlega komi saman burtfluttir skagfirskir kylfingar á höfuðborgarsvæðinu til að sveifla kylfum og rifja upp gömul kynni. Þeir blandast svo saman við kylfinga að norðan, frá gamla góða GSS (Golfklúbbi Sauðárkróks, nú Golfklúbbi Skagafjarðar) á Skagfirðingamótinu. Það var fyrst haldið á Nesvelli árið 1998 og eftir það m.a. á Urriðavelli, Hvaleyrarvelli og í Bakkakoti. Frá 2008 hefur mótið farið fram á Hamarsvelli í Borgarnesi.

Heimild: BJB

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir