Sæluvikan heldur menningunni á tánum

Heba Guðmundsdóttir er verkefnisstjóri Sæluviku. MYND AÐSEND
Heba Guðmundsdóttir er verkefnisstjóri Sæluviku. MYND AÐSEND

Árleg Sæluvika Skagfirðinga verður sett sunnudaginn 30. apríl í Safnahúsi Skagfirðinga við Faxatorg á Sauðárkróki. Það er Heba Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu Skagafirði, sem ber hitann og þungann af að koma saman dagskrá Sæluvikunnar. Feykir hafði samband við Hebu.

Hvernig gengur að koma saman dagskrá Sæluvikunnar, spretta dagskrárliðir upp eða þurfa aðstandendur Sæluvikunnar að ýta við fólki? „Það gengur vel að koma saman dagskrá Sæluviku. Sumt sprettur hratt upp og svo þarf auðvitað alltaf aðeins að ýta við fólki enda nóg að gera hjá flestum. Það er orðin rík hefð fyrir ákveðnum dagskrárliðum á Sæluviku og svo eru alltaf nýjir viðburðir í bland.“

Hver verða helstu atriðin að þessu sinni, verður t.d. eitthvað nýtt og spennandi í boði? „Glænýir af nálinni verða 35 ára útgáfutónleikar hljómsveitarinnar Herramanna. Svo sýnir Leikfélag Sauðárkróks verkið Á svið, það verða tónleikar af öllum stærðum og gerðum, t.d. Sæluvikutónleikar Karlakórsins Heimis og Kvennakórsins Sóldísar, Söngkvöld Kirkjukórs Sauðárkróks og í forsælunni verður Kántríkvöld. Það verða líka myndlistasýningar, Leikhópurinn Lotta verður með sýningu í skólunum, það verða bíósýningar, lokakvöld Meistaradeildar KS í hestaíþróttum og svo sýningin Tekið til kostanna. Þá er auðvitað ekki allt upp talið,“ segir Heba og minnir á að setning Sæluviku verður kl. 13 sunnudaginn 30. apríl í Safnahúsinu á Sauðárkróki. „Þar verða veitt Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og verðlaun fyrir Vísnakeppni Safnahússins. Tónlist, kaffi og terta í boði og allir velkomnir.“

Hvar getur fólk fundið dagskrá Sæluvikunnar? „Við höldum utan um dagskrána á vefsíðunni www.saeluvika.is, á Facebook síðu Sæluviku (endilega setja „like“ á hana) og í Sjónhorninu.“

Merkti við það í Sæluvikudagskránni sem hún hafði áhuga á að sjá

Nú ert þú alin upp á Króknum og mannst því eftir nokkrum Sæluvikum. Var eitthvað sem þú beiðst eftir í Sæluvikunni þegar þú varst unglingur? „Man alltaf eftir því þegar Sæluvikubæklingurinn kom inn um bréfalúguna. Þá fór maður vel yfir hann og merkti við. Bíósýningar voru ekki algengar á Króknum á þessum tíma og maður svitnaði yfir því hvort maður næði að betla pening til að fara á allar myndirnar.“

Hvað gefur Sæluvikan Skagfirðingum? „Að mínu mati skiptir Sæluvika miklu máli. Held hún haldi menningunni á tánum. Hnippir í fólk til að minna það á að standa fyrir viðburðum sem annars myndi eflaust líða lengur á milli. Sæluvika getur líka verið svo skemmtileg ef fólk bara setur sér þau markmið að sækja viðburðina. Það er svo mikið af flottu, menningarskapandi fólki í Skagafirði.“

Hverju ert þú spenntust fyrir í Sæluviku þetta árið? „35 ára útgáfuafmæli Herramanna verður náttúrulega algjör veisla! Án þess að taka neitt frá öðrum viðburðum. Ég heyri að það verði fullt af bekkjarhittingum svo það verður mikið af brottfluttum snillingum sem koma heim á tónleikana.“

Eru Skagfirðingar duglegir að sækja viðburði á Sæluviku? „Margir Skagfirðingar eru mjög duglegir að sækja viðburði en það má alltaf bæta sig. Ég hvet alla til þess að mæta á sem flesta viðburði. Ekki láta vikuna líða og segja svo að það sé ekkert um að vera. Bara drífa sig af stað þó maður sé latur. Það er alltaf gaman þegar maður er mættur!“

Ítarlegra viðtal við Hebu má finna í 16. tölublaði Feykis sem kom út í dag.

- - - - - 
DAGSKRÁ SÆLUVIKU >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir