Skagstrendingar lásu til sigurs í Samrómi

Nemendur Höfðaskóla á Skagaströnd. MYND AF VEF SKÓLANS
Nemendur Höfðaskóla á Skagaströnd. MYND AF VEF SKÓLANS

Höfðaskóli á Skagaströnd tók þátt í Samrómi, lestrarkeppni grunnskólanna, og gerði sér lítið fyrir og sigraði í C-flokki. Allir nemendur og starfsfólk skólans tóku þátt ásamt fjölmörgum velunnurum skólans. „Samstaða og samheldni einkenndi keppnisanda allra þeirra sem tóku þátt,“ segir á heimasíðu Höfðaskóla.

Höfðaskóli keppti sem fyrr segir í flokki C, flokki smærri skóla, og átti þar í harðri samkeppni við Öxafjarðarskóla og fóru leikar þannig að Skagstrendingar höfðu betur. Í nafni skólans voru lesnar 153.288 setningar af 353 keppendum. Þess má geta að skólinn var einnig í þriðja sæti á landsvísu.

Í fréttinni segir að í verðlaun fær skólinn glæsilegan þrívíddarprentara og Rasberry pie tölvu sem hvorutveggja munu nýtast skólanum í námi og kennslu. „Skólinn þakkar öllum þeim sem lögðu okkur lið, samstaðan leiddi okkur til sigurs,“ segir í lokin.

Á Facebook-síðunni Almannarómur segir um keppnina: „Gríðarleg spenna myndaðist á lokasprettinum og var síðasti dagur keppninnar sá langstærsti til þessa, en þá lásu keppendur inn 487.936 setningar. Alls tóku 118 skólar þátt og lögðu 5.652 manns sínum skóla lið í þessari keppni. Ríflega 1,3 milljónir raddsýna söfnuðust í keppninni.“

Þess má geta að Salaskóli sigraði í A flokki stærri skóla en Smáraskóli varð hlutskarpastur í B flokki skóla sem eru af miðlungs stærð.

Almannarómur var stofnaður árið 2014 í því augnamiði að tryggja að máltæknilausnir verði smíðaðar fyrir íslensku. Almannarómur er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á að framkvæma máltækniáætlun samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið frá árinu 2018. Máltækniáætlun er til fimm ára og hófst vinna við kjarnaverkefnin formlega 1. október 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir