Sungu fyrir heimilisfólk á Sæborg
			
						Börnin á Eldrikjarna í leikskólanum Barnabóli á Skagaströnd gerðu sér dagamun í tilefni af Degi íslenskrar tungu síðast liðinn mánudag. Heimsóttu þau dvalarheimilið Sæborg og sungu skólasönginn sinn og nokkur önnur lög fyrir heimilisfólk þar.
Eftir sönginn var spjallað og fengu börnin að skoða húsnæðið og prufa að setjast og slaka á í fallegu sólstofunni á Sæborg. Þau voru hrifnust af innisundlauginni sem heimilisfólk hefur aðgang að og fengu að skoða hana, að sögn Maríu Aspar Ómarsdóttur, leikskólastýru á Barnabóli.
Skólasöngur Barnabóls:
Í skóla er gaman, krakkar leika.
Strákarnir dansa, stelpur spinna, gleði finna.
Hlæja og hlæja í hjarta sér
og hlæja og hlæja í hjarta sér.
Í skóla er gaman, krakkar leika.
Stelpurnar dansa, strákar spinna, gleði finna.
Hlæja og hlæja í hjarta sér
og hlæja og hlæja í hjarta sér.
						
								
				
				
				
				
