Svipmyndir frá vel heppnaðri Dylanhátíð á Skagaströnd

Frá Dylanhátíðinni Eins og veltandi steinn sem fram fór á Skagaströnd dagana 13.-14. ágúst sl. MYNDIR: FROSTI B. EIÐSSON
Frá Dylanhátíðinni Eins og veltandi steinn sem fram fór á Skagaströnd dagana 13.-14. ágúst sl. MYNDIR: FROSTI B. EIÐSSON

Bob Dylan er án efa einn merkasti listamaður samtímans. Hann er búinn að vera lengi að. Gefið út plötur í 60 ár og verið skrýddur flestum verðlaunum og enn er í fersku minni þegar hann var of upptekinn að mæta til að taka á móti nóbelsverðlaununum. Árið 2021 náði hann þeim merka áfanga að verða áttræður. Þá stóð til að halda hátíð honum til heiðurs á Skagaströnd en það þurfti að fresta henni þegar enn ein bylgja veirunnar lét á sér kræla.

Það dugði þó ekki til þess að fólk bugaðist heldur var ákveðið að fagna stórafmælinu ári síðar. Hátíðin fór fram 13. – 14. ágúst síðastliðinn undir yfirskriftinni: Eins og veltandi steinn. Þar er vitnað í eitt þekktasta lag Dylan Like a Rolling Stone. Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu og Magnús Jónsson, fyrrum sveitastjóri Skagstrendinga fóru fyrir góðum hópi í skipulagi og undirbúningi hátíðarinnar. Fjöldi hljómsveita komu að því að flytja lög Dylans. Líklega hefur verið sett Íslandsmet í flutningi á verkum Nóbelsverðlaunahafans. Á hátíðinni komu m.a. fram Sverrisson Hotel, Dylansérsveitin, Dulúð, Zimmerman, Progress, Magnús Helgason og Dylanbræður, Chris Foster og Bára Grímsdóttir, Slow train og Himnahliðið.

Dylanmafían stóð fyrir sýningu á ýmsum áhugaverðum munum tengdum Dylan. Henning Emil Magnússon fjallaði um Dylan með stuttum innslögum á kvöldvökunni á laugardagskvöldinu. Mest af hátíðinni fór fram í Félagsheimilinu á Skagaströnd en flæddi einnig yfir á veitingastaði staðarins.

Á sunnudeginum var Dylan-messa þar sem tónlist hans voru notuð í athöfninni. Sr. Bryndís Valbjarnardóttir og sr. Henning Emil Magnússon þjónuðu. Mikið af tónlist Dylans fæst við trúarleg viðfangsefni og því auðvelt að finna viðeigandi söngva. Tónlistarfólkið á hátíðinni skiptu á milli sín verkefnum og mörg komu að flutningnum. Það tókst verulega vel til. Stundinni lauk með fjöldasöng á þekktasta lagi Dylans Blowin‘ in the Wind. Eftirspilið var einnig viðeigandi, lagið One More Cup of Coffee. Einn kaffibolli áður en haldið var heim af þessari góðu hátíð. En hápunkturinn var eftir messu. Góðar konur höfðu tekið sig til og bakað bananabrauð eftir uppskift móður Dylans, Beatty Zimmermann. Uppskrift ólík öllum öðrum. Þannig að haldið var heim með blöndu af kaffi og himnesku bananabrauði.

/Henning Emil Magnússon
/Feykir fékk góðfúslegt leyfi til að að birta myndir sem Frosti B. Eiðsson tók á hátíðinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir