Úr skjóli Hjaltadalsins í Evrópuslaginn í Brussel

Kristín Kolka og Brussel í baksýn. AÐSENDAR MYNDIR
Kristín Kolka og Brussel í baksýn. AÐSENDAR MYNDIR

DAGUR Í LÍFI BROTTFLUTTRA | Kristín Kolka Bjarnadóttir svarar

Nú býður Feykir lesendum sínum að stökkva um borð í hraðlest til Brussel í Belgíu en þar hittum við fyrir hana Kristínu Kolku Bjarnadóttur. Hún starfar í þessari höfuðborg evrópskrar samvinnu sem lögfræðingur hjá Uppbyggingarsjóði EES. Kristín Kolka er fædd árið 1994 og er frá Hólum í Hjaltadal, foreldrar hennar eru Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og Bjarni Jónsson og síðan á hún tvo bræður, þá Gunnar Loga Guðrúnarson og Jón Kolka Bjarnason.

„Ég flutti til Belgíu haustið 2020 til að fara í starfsnám en flúði til baka í Skagafjörðinn fimm vikum seinna vegna ömurlegs Covid ástands og eyddi vetrinum á Hólum en áfram að vinna í belgísku vinnunni minni,“ segir Kristín þegar hún er spurð hvenær hún hafi flutt til Brussel. „Ég fór hins vegar aftur til Belgíu í vor, kláraði starfsnámið mitt og hélt áfram að vinna hjá sama vinnuveitanda sem lögfræðingur,“ bætir hún við.

Á Facebook segir að þú sért Legal Officer hjá EEA and Norway Grants. Hvað þýðir þetta á venjulegri norðlensku? „Við vini og vandamenn segi ég oftast að það sé eins með mig og Chandler í Friends – það er ómögulegt að útskýra hvað ég geri í raun í vinnunni. En ef ég reyni að gera þetta einfalt þá stuðlar Uppbyggingarsjóður EES að umbótum og uppbyggingu í efnaminni ríkjum Evrópusambandsins í gegnum styrkjakerfi sem er fjármagnað af Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Sjálf vinn ég mest með Eystrasaltsríkjunum og veiti lögfræðiráðgjöf. Það er mjög skemmtilegt að vinna í alþjóðlegu umhverfi og kollegar mínir á skrifstofunni eru alls staðar að, en ég er líka langt frá því eini Íslendingurinn.“

Kristín segir að Belgía hafi farið gríðarlega illa út úr Covid og landsmenn mátt glíma við miklar og langvinnar takmarkanir. „Síðasta vetur var engin menningarstarfsemi leyfð, veitingahús voru lokuð og heimavinna var skylda. Ég ákvað því að eyða vetrinum heima á Hólum. En það var óneitanlega skrýtið að byrja í nýrri vinnu í nýju landi án þess að hitta flesta kollega og yfirmenn fyrr en eftir níu mánuði í starfi.“

Þú ert búin að flækjast eitthvað meira á stuttri ævi, á hvaða fleiri stöðum hefurðu búið og hvar fannst þér best að vera? „Ég bjó sem barn í einn vetur í Guelph í Kanada, eftir menntaskóla var ég hálfan vetur í Tromsö í Noregi og hálfan vetur í Vín í Austurríki. Í meistaranáminu mínu fór ég svo í árslangt skiptinám til Melbourne í Ástralíu sem stendur algjörlega upp úr. Það er mjög skemmtilegur andi í Ástralíu, veðrið er gott og það eru endalausir ferðamöguleikar í svona stóru landi. Eini gallinn við Ástralíu er hversu langt í burtu landið er, ég gæti aldrei búið þar lengi því ég er svo heimakær og þarf að komast heim til fólksins míns reglulega.“

Góður staður fyrir ferðasjúka manneskju

Hvernig myndir þú lýsa venjulegum degi hjá þér? „Á venjulegum degi myndi ég fara úr húsi upp úr átta og labba í vinnuna, stundum gríp ég nýbakað croissant á leiðinni. Í hádeginu fer ég yfirleitt með vinnufélögum á einhvern af þeim fjölmörgu stöðum í nágrenninu sem selja tilbúna rétti og samlokur á góðu verði. Eftir vinnu geri ég stundum eitthvað með vinnufélögunum, það er mjög góður andi í vinnunni og mikið félagslíf, en oftar en ekki fer ég bara heim og horfi á eitthvað skemmtilegt á Netflix,“ segir Kristín en tekur fram að eftir langan tíma af heimavinnu þá er það ennþá hápunktur dagsins að fá að mæta á skrifstofuna, sem er bara búið að vera leyfilegt síðan í júlí. „Það er stundum fínt að vinna heima en mér finnst betra að vinna með fólki og til dæmis taka gott spjall í hádeginu.“

Hvað er best við að búa í Belgíu? „Það besta við að búa í Belgíu fyrir ferðasjúka manneskju eins og mig, er hvað það er auðvelt að hoppa upp í lest til þess að skoða aðrar borgir í Belgíu eða fara í helgarferð til annarra landa. Bara í sumar og haust er ég búin að ferðast til Champagne héraðsins og Parísar í Frakklandi, Kölnar í Þýskalandi og Lúxemborg. En það er líka fínt að vera í Belgíu sjálfri og ég er búin að ferðast mikið innanlands, þetta land kemur á óvart.“

Belgíska súkkulaðið er frægt, ertu búin að kanna málið og hverju mælirðu þá með? „Ég er svo sannarlega búin að kanna málið í þaula og mæli með Neuhaus. Fylltir súkkulaðimolar voru fundnir upp af Neuhaus og þeir eru líka mjög góðir hjá þeim. Ég hef því miður ekki séð Neuhaus súkkulaði á Íslandi en um að gera að ferðast til Belgíu og prófa – ásamt belgíska bjórnum.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart í Belgíu? „Belgía getur verið gríðarlega óskilvirkt og óskipulegt land en samt reddast flest að lokum hjá þeim og oft með stæl. Annað reddast reyndar ekki og skemmtilegt dæmi er að í miðbænum er gríðarlega stór og flott bygging, dómshúsið Palais de Justice, sem ákveðið var að flikka upp á árið 1984 og stillansar reistir. Það vill ekki betur til en svo að á þessu ári var ákveðið að nú þyrfti að gera við stillansana – sem hafa staðið í 37 ár...“

Saknar íslenska landslagsins

„Um helgar labba ég oft um í Brussel til að kynnast borginni eða fer í dagsferðir til annarra borga í Belgíu. Þær eru margar mjög flottar og skemmtilegar en Gent stendur upp úr“ segir Kristín þegar hún er spurð hvort hún hafi eitthvað náð að ferðast um landið þennan stutta tíma sem hún hefur dvalið þar. „Ég var líka í sumar aðeins á belgísku ströndinni, sem er aðeins kaldari upplifun en spænsku strendurnar, en Belgar mega eiga það að þeir halda þeim snyrtilegum og hreinum.“

Hvers saknar þú mest að heiman? „Ég sakna mest fjölskyldunnar og íslenska landslagsins. Það getur orðið pínu þreytt til lengdar að búa í miðborg stórborgar þó það sé mjög gaman líka.“

Eru Belgar ólíkir Íslendingum og er eitthvað sem Íslendingar gætu lært af Belgum? „Það vantar allt þjóðarstolt í Belga en Belgía er ungt land sem er í raun tvö lönd með mismunandi hefðir og tungumál. Þessi sundurleita þjóð kemur eiginlega bara saman til að styðja karlalandsliðið þeirra í fótbolta. Þannig ég myndi segja að það væri helsti munurinn á Belgum og Íslendingum þar sem við Íslendingar eigum það stundum til að næstum rifna af þjóðarstolti. Ég veit ekki hvað við gætum lært af Belgum, kannski að búa til gott súkkulaði? Ég verð samt að segja mér fannst gott að fá sendingu af íslensku suðusúkkulaði um daginn,“ segir Kristín Kolka að lokum.

- - - - - -
Þessi þáttur birtist í 48. tölublaði Feykis 2021. Þar má finna ítarlegri útgáfu af þættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir