Væri til í að brenna í burtu besserwissera viðhorf Íslendinga

Hrabbý og Davíð Stefán. MYND AÐSEND
Hrabbý og Davíð Stefán. MYND AÐSEND

Það er söngdívan Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, frá Dæli í Vestur-Húnavatnssýslu, sem heldur áfram að svara ársuppgjöri Feykis. Hún segir m.a. að fyrir sig persónulega hafi móttökur við litla skólanum hennar, Starcodes Academy slegið flest annað út á árinu 2022.

Hver er maður ársins? Ég held að við ættum öll að vera “manneskja ársins” í okkar eigin lífi, nota tækifærið um áramót til að skoða allt sem við höfum afrekað á árinu og klappa okkur á öxlina fyrir það.

Hver var uppgötvun ársins? Helsta uppgötvun ársins hjá mér var hversu gott það er að setja hnetusmjör á rískökur með súkkulaði.

Hvað var lag ársins? Samkvæmt Spotify hlustaði ég mest á lagið Where You’re at með Allen Stone. Frábært lag með frábæran boðskap um að lifa heiðarlegu lífi gangvart mér og öðrum – Keep your dirt on the surface and love where you’re at.

Hvað var broslegast á árinu? Það er erfitt að velja eitthvað eitt, hjá okkur hjónum er lífið oft eitt stórt hláturskast, sérstaklega þegar við hlæjum að vitleysunni sem okkur tekst oftar en ekki að koma okkur í!

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2022 – eða best? Fyrir mig persónulega hafa móttökurnar við litla skólanum mínum Starcodes Academy slegið flest annað út. Það er mögnuð tilfinning að fá að upplifa draumana sína. Talandi um drauma þá útskrifaðist maðurinn minn sem matreiðslumaður líka! Þess utan tók ég þátt í mjög skemmtilegum tónlistarverkefnum og fékk m.a. að kynnast goðsögninni Helenu Eyjólfs.

Varp ársins (sjónvarp/útvarp/hlaðvarp)? Hlaðvarpið Nær dauða en lífi hjá þeim stöllum hjá Aska Bio Urns finnst mér afar áhugavert en þar fjalla þær um dauðann út frá ýmsum sjónarhornum, bæði praktíkina og dulúðina.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Ég væri alveg til í að brenna í burtu þetta besserwissera viðhorf sem við Íslendingar erum afskaplega góð í að tileinka okkur. Ef eitthvað gengur á í samfélaginu verða yfirleitt til um 300.000 sérfræðingar í viðkomandi málefni sem telja mun mikilvægara að tala en að hlusta. Ég held að við græðum mun meira á því að læra að tala saman en að tala á hvort annað endalaust. Stundum er líka gott að taka til í sjálfum sér áður en maður fer að gagnrýna aðra mikið!

Hvað viltu sjá gerast árið 2023? Ég væri til í að sjá meira minni fordóma og meira hugrekki okkar til að endurskoða viðhorf, bæði til okkar sjálfra og annarra. Það eina sem við getum verið viss um er að það verða alltaf breytingar. Velgengni okkar sem einstaklinga og samfélags stendur og fellur með því hversu vel við náum að tileinka okkur breytingarnar og nýta þær til að skapa það samfélag sem við viljum búa í. Það að hlutir hafi alltaf verið á einhvern hátt þýðir ekki endilega að þeir þurfi eða eigi að vera þannig áfram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir