Bakaður fetaostur og nautasteik með eins litlu grænmeti og mögulegt er

Matgæðingarnir Brynjar og Gunna ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Brynjar og Gunna ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.

Kúabændurnir Brynjar og Guðrún Helga í Miðhúsum í Blönduhlíð deildu uppskriftum með lesendum Feykis í 19. tbl. ársins 2017 og að sjálfsögðu varð nautasteik fyrir valinu. Þau hófu búskap á heimaslóðum Guðrúnar í Miðhúsum þremur árum áður og bjuggu þá með 40 kýr og eitthvað af hundum, köttum, hestum og kindum. Að eigin sögn er Brynjar „bara sveitadurgur“ en Guðrún kenndi við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi auk þess að troða upp sem söngkona við hin ýmsu tækifæri. Börn þeirra hjóna eru fjögur.

FORRÉTTUR
Bakaður  fetaostur með heimabökuðu snittubrauði

feta ostur, stykki
ólívuolía
rauður chilipipar
rauð paprika

Aðferð: 
Feta stykkið er skorið í sentimeters þykkar sneiðar og þær lagðar í ofnmót.  Osturinn er kryddaður með ólífuolíunni og chilipiparnum.  Stundum höfum við haft chiliplöntu í stofuglugganum og tekið piparinn af og þurrkað í álbakka í sama glugga, mulið svo út í olíuna t.d. í morteli.  Svo er falleg sneið af papriku lögð yfir og allt saman sett í ofn á 200°C þangað til osturinn lítur út fyrir að vera tilbúinn (nokkrar mínútur).  Með þessu er gott að hafa heimabakað snittubrauð sem einnig nýtist vel sem verkfæri til að moka þessu í sig, sé um einstaklingsmót að ræða.

Snittubrauð

1,3 kg hveiti
1 tsk salt
50 g ger
5 dl volgt vatn
50 g smjör

Aðferð: 
Hnoðið saman og látið hefast í 30 mínútur.  Mótið í tvær lengjur og látið hefast aftur í 10 mínútur.  Bakið við 225°C í miðjum ofni í 20 til 30 mínútur (eftir ofnum).

AÐALRÉTTUR
Nautasteik með bakaðri kartöflu, rjómapönnusósu og eins litlu grænmeti og mögulegt er

Kartöflurnar eru bakaðar fyrst því þær haldast heitar á meðan restin er afgreidd.  Ekki fleiri orð um þær.
Um er að ræða 3 - 4 cm þykka framhryggjarsteik.  Við meðhöndlum okkar nautakjöt þannig að þegar það kemur úr úrbeiningu er það látið hvíla/hanga í kæliskáp í þriggja til fjögurra gráðu hita í 16 daga.  Að því loknu er það fryst.  Með þessu móti er kjötið tilbúið og má taka úr frosti þegar á að elda það, þíða með nánast hvaða hætti sem er - bara að það sé við stofuhita þegar steikt er.
Kjötið er kryddað með salti og pipar og brúnað vel á heitri pönnu í blöndu af smjöri og olíu.  Síðan fer steikin í 160 gráðu heitan ofninn í fimm til níu mínútur (fer eftir ofni og hvernig steikingu þú vilt).
Meðan kjötið er í ofninum er gott að gera sósu.  Setjið smávegis rauðvínsedik á heita pönnuna sem kjötið kom af til að ná upp því bragði og krafti sem þar er.  Lækkið svo hitann og hellið rjóma í samræmi við óskað sósumagn út í.  Setjið svo nautakraft eftir smekk og sjóðið rólega niður í óskaða þykkt.
Þegar kjötið kemur úr ofninum er lykilatriði að það standi og hvíli á bekknum, undir álpappír í 8 til 10 mínútur.  Snertist ekki fyrr.
Með þessu er sjálfsagt fínt að grilla aspas eða smjörsteikja grænmeti.

EFTIRRÉTTUR
Hunangsleginn og grillaður ananas með ís

ferskur ananas
gott hunang að eigin vali
Emmess ís (síður valkvætt)

Aðferð:
Ananasinn þrifinn og skorinn í tommu þykkar sneiðar með hýðinu.  Kjarninn tekinn úr.  Sneiðarnar baðaðar í hunangi og látnar standa og safna í sig í klukkutíma á bekknum.  Þar næst eru sneiðarnar grillaðar úti í garði þangað til ananasinn fer að mýkjast en þá er sneið sett á disk og góð ískúla í hana miðja.  
Það þarf enga sósu með þessu.

Verði ykkur að góðu
Brynjar & Gunna
Miðhúsum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir