Besta súpa í heimi og bleikja í ofni

Guðmundur Hólmar og Þórey Edda ásamt sonum sínum. Mynd: Úr einkasafni.
Guðmundur Hólmar og Þórey Edda ásamt sonum sínum. Mynd: Úr einkasafni.

Það voru þau Þórey Edda og Guðmundur Hólmar á Hvammstanga sem áttu uppskriftir í 15. tölublaði Feykis árið 2015. Þau buðu upp á aspassúpu með humri og bleikju í ofni. „Einfaldlega besta súpa í heimi. Sem sagt, þetta er súpan sem er alltaf á jólunum hjá okkur en er auðvitað í lagi að hafa við önnur tilefni. Nú þegar sumarið nálgast hentar vel að hafa uppskrift af bleikju í ofni við höndina.  Einföld og góð,“ segja Þórey Edda Elísdóttir og Guðmundur Hólmar Jónsson. 
Kartöflurétturinn er frá móðursystur Þóreyjar, Hildi Albertsdóttur. „Hún býr í Frakklandi og er alltaf með puttann á púlsinum hvað varðar matargerð.  Hún deilir stundum uppskriftum með okkur fjölskyldunni ef henni finnst við endilega þurfa að prófa eitthvað.  Þessar kartöflur eru algjört lostæti. 

Forréttur
Aspassúpa með humri (úr bókinni Að hætti Sigga Hall)

150 g humar
200 g nýr grænn aspas
¼ blaðlaukur
1 lítil gulrót
½ laukur
2 greinar timjan
2 lárviðarlauf
1 l grænmetissoð
smjörbolla (60 gr hveiti og 100 gr smjör)
1 dl hvítvín
1 dl rjómi
sletta af sérríi 

Aðferð:
Skelflettið humarinn.  Takið sjálfan fiskinn til hliðar en skeljarnar notast í súpugerðina. Flysjið aspasinn næstum því upp að toppi.  Skerið u.þ.b. 2-4 sm neðan af aspasinum (það sést hversu langt "trénaður" endinn er). Geymið allan afskurð.
Skerið gulrótina, blaðlaukinn og laukinn í grófa bita.  Léttsteikið upp úr smjöri eða ólífuolíu, ásamt humarskelinni og afskurðinum af aspasinum.  Hellið grænmetissoðinu yfir og látið smásjóða í u.þ.b. eina klukkustund.  Sigtið tvisvar, fyrst í gegnum gróft sigti og síðan í gegnum fínt. Pressið vel á allt innihaldið til að ná sem mestum krafti úr því.  Setjið í annan pott og þykkið með smjörbollunni þar til hæfileg þykkt hefur náðst.  Bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og hvítum pipar úr kvörn.
Ef humarinn er stór, skerið hann þá í tvennt eða þrennt.  Skerið aspasinn í 2 sm langa bita (skerið aðeins á ská til að fá fallegra útlit).  Látið smjörklípu í pott og léttsteikið humarinn og aspasinn upp úr því.  Hellið hvítvíninu yfir og látið hitna næstum því upp að suðumarki. Takið þá humarinn og aspasinn upp úr og látið til hliðar. Hellið hvítvínssoðinu saman við súpuna. 
Rétt áður en súpan er borin fram setjum við forsoðinn aspasinn og humarinn út í sjóðandi súpuna og gefum henni einn einfaldan sérrí á leiðinni inn í borðstofu. Gott er að klippa graslauk ef svo ber undir. 

Aðalréttur
Bleikja í ofni 

Blandið ólífuolíu, mörðum hvítlauk og basil saman (maukaðri) og hellið yfir flökin.  Látið það standa í u.þ.b. 3 tíma og setjið svo smá smjörklípu út á áður en þetta er sett inn í 190°C heitan ofn í um 8 mínútur.  Stráið svo salti yfir áður en þetta er borið á borð.

Nauðsynlegt er að hafa salat með en við ákváðum þó að láta ekki uppskrift af salati fylgja.

Meðlæti
Kartöfluréttur

Hnefafylli/bolli steinlausar, svartar ólífur, skornar í tvennt ef vill
nokkrar beikonsneiðar eða stykki, skorið í 1 sm bita
½ bolli ólífuolía
u.þ.b. 10 sveppir, skornir í tvennt eða fernt, eftir stærð
1 bolli perlulaukar, eða venjulegur laukur, ekki of þunnt sneiddur eða saxaður
2 tsk sykur
6-10 kartöflur, skornar í frekar stóra bita
u.þ.b. 6 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt
nokkrar ferskar timiangreinar
½ bolli grænmetissoð
salt og svartur pipar 

Aðferð:
Ef ólífurnar eru mjög saltar, skellið þeim þá í kalt vatn og og látið suðuna koma upp, hellið af.
Beikon steikt í smá ólífuolíu í um tvær mínútur, ekki brúna það of mikið, setjið á eldhúspappír.
Sveppir steiktir í beikonfitunni uns þeir eru fallega brúnir. Þurrkið pönnuna og brúnið laukinn í 1 msk ólífuolíu í um 3 mínútur, stráið svo sykrinum yfir og eldið í aðrar þrjár.
Beikon, sveppir, laukur, kartöflur, ólífur, hvítlaukur, timian og grænmetissoð sett í stórt eldfast form, blandað saman og afganginum af olíunni hellt yfir, álpappír settur yfir og bakað við um 150-160 gráður í um klukkustund, eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar, hrært einu sinni í á meðan, til að allt blandist vel.
Kryddið með pipar og smá salti ef þarf.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir