Gott nesti fyrir göngugarpa

Hráskinkumúffur. https://nannarognvaldar.wordpress.com
Hráskinkumúffur. https://nannarognvaldar.wordpress.com

„Sumarfrísdögum eyði ég gjarnan í gönguferðum og þá er mikilvægt að velja morgunverð og nesti sem stendur vel með manni," sagði Kristín S. Einarsdóttir sem sá um Matgæðinga Feykis í 27. tbl. ársins 2016. Kristín bætti við: „Í síðustu viku gekk ég með góðum hóp kvenna í Fljótunum. Við erum svo heppnar að í hópnum er matargæðingur af Guðs náð, Guðríður Skagfjörð Sigurðardóttir. Ég ætla deila hér með lesendum saðsömum samlokum og matarmiklum múffum sem hún bauð okkur upp á."

Hráskinkumúffur (af vef Nönnu Rögnvaldar)

100 g cheddarostur (má vera sterkur gouda eða annar frekar bragðmikill ostur)
1 bréf (um 80 gr) hráskinka (1 sneið tekin frá)
2 vorlaukar, saxaðir
200 g kotasæla
150 ml mjólk
1 egg
75 g olía (má sleppa)
250 g hveiti
2½ tsk lyftiduft
¼ tsk salt
¼ tsk pipar
fjallasteinselja eða aðrar kryddjurtir (má sleppa)

Aðferð:
Osturinn rifinn gróft og hráskinkan rifin smátt niður. Osturinn, kotasælan, mjólkin og eggið hrært saman í annarri skál með sleikju, ásamt olíunni ef hún er notuð. Kryddjurtum blandað við þetta ef notaðar. Hveiti, lyftiduft, salt og pipar blandað saman í annarri skál. Þurrefnin og blauta hræran sett saman, ásamt hráskinku og vorlauk og blandað með sleikju. Verður frekar þykkt ef olíunni er sleppt, en þá má bæta við smáskvettu af mjólk. Ekki reyna að baka múffurnar í pappírsformum, síst af öllu ef olíunni er sleppt. Nota má málmform og fóðra þau með sílikonformum eða bökunarpappír (þá klippir maður bara ferninga eða hringi úr bökunarpappír og setur einn í hverja holu í málmforminu). Einnig má nota málmform sem eru viðloðunarfrí. Deigið passar í 12 form. Loks er sneiðin sem hafði verið tekin frá af hráskinkunni rifin niður og einn biti settur ofan á hverja múffu. Bakað við 190°C á næstefstu rim í 20 mínútur. Látnar kólna í fáeinar mínútur áður en þær eru teknar úr formunum. Múffurnar má frysta og hita upp aftur, til dæmis sem morgunverð. 

Smákökur í nestispakkann

110 g smjör
145 g ljós púðursykur
1 msk golden sýróp
vanilludropar
1 egg
200 g hveiti
½ tsk lyftiduft
30 g shelled peacan hnetur
30 g trönuber

Aðferð:
Smjöri og sykri hrært saman. Eggi, sýrópi og vanilludropum bætt í og hrært aðeins í. Síðan er hveiti og lyftidufti og loks trönuberjum og söxuðum pecanhnetum bætt í. Deigið er síðan mótað í rúllu og geymt í ísskáp í að minnsta kosti klukkutíma - skorið í sneiðar og bakað við 170-180 í u.þ.b. 20 mínútur.

Saðsamar samlokur og staðgóður hafragrautur

Saðsamar samlokur eru ómissandi í nestispakkann. Mig langar að nefna tvær samsetningar sem brögðustu hreint dásamlega.

Annars vegar súrdeigsbrauð (í þessu tilfelli úr Sandholtsbakarí, en þau fást líka í Sauðárkróksbakarí og víðar) smurt með góðu sinnepi, osti og góðri skinku. Pylsumeistarinn við Laugarlæk (og eflaust fleiri verslanir) er með gæðaskinku.

Hins vegar rúgbrauð (vorum með gulrótarrúgbrauð úr Geirabakarí, en í Sauðákróksbakarí fást dásamleg dönsk rúgbrauð sem henta vel) smurt með smjöri, soðnum eggjum og reyktum silungi.

Að byrja daginn á staðgóðum hafragraut klikkar aldrei. Hefðbundinn hafragraut má gera enn betri með því að blanda í hann kanil, maple sýrópi og söxuðum döðlum. Hann verður aðeins sætari og kannski ekki alveg eins hollur, en alveg himneskur á bragðið.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir