Grænkálskartöflustappa að hætti Hollendinga

Matgæðingar vikunnar í 46. tbl. ársins 2015 voru Jessie Huijberts og Hörður Óli Sæmundsson í Gröf, Húnaþingi vestra. Jessie á rætur að rekja til Hollands og ætla þau því að bjóða upp á hollenska grænkálskartöflustappu, sem Jessie segir í uppáhaldi hjá hverjum Hollendingi. 

„Ef þú spyrð Hollending hvaða rétt hann telji vera mest hollenskan af öllum hollenskum réttum mun hann sjálfsagt svara um hæl Stamppot. Stamppot er grænmetisstappa gerð úr kartöflum og öðru rótargrænmeti eins og næpum eða steinseljurót eða öðru grænmeti. Ef orðið er þýtt beint þýðir það stappaður pottur og vísar til þess að grænmetið er stappað í mauk. Stamppot er gjarnan borðað með reyktri pylsu sem nefnist rookworst. Flæmskir Belgar kalla réttinn stoemp. Boerenkool eða bændakál er það sem er nefnt á ensku kale eða grænkál á íslensku,“ segir Jessie um réttinn. 

Hollensk grænkálskartöflustappa (Boerenkool stamppot)
Fyrir fjóra 

1350 g kartöflur
2 laukar

1 lárviðarlauf

500 g grænkál

salt, pipar og múskat eftir smekk

500 g reykt pylsa (bjúga, medisterpylsa eða annað)
120 ml mjólk

2 msk smjör 

Aðferð:
1. Afhýðið og skerið kartöflur í teninga og saxið laukinn. 

2. Skolið grænkál, snyrtið það til og skerið niður. 

3. Setjið kartöflur, lauk, lárviðarlauf, örlítið af salti í 3 l pott, setjið vatn út í og 
látið það rétt fljóta yfir. Látið suðuna koma upp, setjið lok yfir og látið malla í 25 mínútur. 

4. Gufusjóðið pylsuna á meðan í um 20 mínútur og skerið hana í sneiðar. 

5. Fjarlægið lárviðarlaufið, látið vatnið renna af grænmetinu og stappið það svo í 
mauk. Bætið mjólk og smjöri saman við grænmetið og gerið að grænmetisstöppu. 

6. Hrærið pylsusneiðunum saman við, saltið, piprið og múskat eftir smekk, setjið í fallega skál eða á fat og smakelijk eten, eða verði ykkur að góðu. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir